Innlent

Vigdís telur Samfylkinguna standa á bak við símahleranir í Hafnarfirði

Jakob Bjarnar skrifar
Ef marka má athugasemd Vigdísar hefur hún haft öðrum hnöppum að hneppa en fylgjast með bæjarmálapólitíkinni í Hafnarfirði.
Ef marka má athugasemd Vigdísar hefur hún haft öðrum hnöppum að hneppa en fylgjast með bæjarmálapólitíkinni í Hafnarfirði.
Mynd af athugasemd sem Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknar og formaður fjárlaganefndar, skrifar gengur nú ljósum logum á Facebook. Þetta er skjámynd af athugasemd sem Vigdís setti á vegg Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur borgarfulltrúa og alþingismanns, svohljóðandi: „Hvenær ætli Teitur Atlason skrifi um lögbrot Samfylkingarinnar í Hafnarfirði – um að hlera síma bæjarfulltrúa annara flokka ekkert er fjallað um það mál þrátt fyrir mjög alvarlegt brot“.

Vigdís vísar til mála í Hafnarfirði sem hafa verið til umfjöllunar á Vísi.

Nokkur umræða myndaðist á vegg Sveinbjargar Birnu sem kvartar undan skrifum Teits Atlasonar í málgagn Samfylkingarinnar í Reykjavík en þar er sagt að svindl og óvirðing gagnvart lögum hafi birst við lögskráningu oddvita Framsóknar, það er Sveinbjargar Birnu. Sveinbjörg er afar ósátt við skrif Teits og segir: „Ekki hef ég tjáð mig mikið um þetta mál en mikið væri það nú yndislegt að jafnaðarmaðurinn myndi kynna sér gögn málsins áður en hann færi að básúna óhróður og lygar um mig. Skal með glöðu geði afhenda alvöru blaðamönnum öll skjöl um málið. Enn og aftur falla vinstri andstæðingar mínir í auma sjálfskapaða ....holu.“

Vigdís setur þá inn áðurnefnda athugasemd og er Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar einn þeirra sem birtir mynd af orðum Vigdísar. Össuri er skemmt: „Okkar kona í banastuði!“ Hann telur hugsanlegt að þarna gæti örlítils misskilnings hjá þingkonunni um „um hvaða flokkar stýra Hafnarfirði. Síðast þegar ég gáði var það ekki Samfylkingin heldur Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn. En vitaskuld er ekki rétt að gera of miklar kröfur um þekkingu þingmanna Reykjavíkur á bæjarstjórnum í fjarlægum landshlutum.“ Og þá er vakin athygli á því, á Facebook-vegg Össurar, að ekki aðeins sé það rangt heldur einnig að málið í Hafnarfirði snúist ekki um símhleranir heldur afhendingu gagna til bæjarstjóra Hafnarfjarðar um símtalaskrár frá Vodafone.

Um svipað leyti og menn voru að velta fyrir sér þessari sérkennilegu athugasemd Vigdísar birtist frétt á Pressunni þess efnis að Vigdís væri búin að klára hinn vinsæla tölvuleik Candy Crush. Pressan vitnar í Vísi sem hafði það eftir Vigdísi að iðkun þess leiks skerpi rökhugsun. En, víst er að snerpa í hugsun hefur fátt eitt með það að gera að kunna skil á bæjarpólitíkinni í Hafnarfirði, og margir sem eiga erfitt með að átta sig á því út á hvað símamálið mikla þar gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×