Innlent

Myndband: Egilshöll rýmd eftir að brunakerfi fór í gang

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Leikmönnum og áhorfendum lá ekki á út í kuldann.
Leikmönnum og áhorfendum lá ekki á út í kuldann. vísir/pjetur
Hafist var handa við að rýma Egilshöll eftir að brunakerfið þar fór í gang. Enginn reykur eða eldur var þó sjáanlegur og hvergi hafði kviknað í.

Slökkviliðið hafði ekki verið kallað út og þegar Vísir heyrði í starfsmanni hússins fengust þær upplýsingar að líklega hafi börn eða unglingar verið að fikta í kringum brunaboða eða einhver bilun hefði orðið í brunakerfi hússins.

„Þetta er allt hálf kómískt,“ segir Elvar Geir Magnússon, annar ritstjóra Fótbolta.net, en hann er staddur í höllinni að fylgjast með leik Leiknis og Gróttu.

„Það fór eitthvað boð í gang skömmu fyrir leik og dómarinn mat það svo að hann myndi stöðva leikinn ef eitthvað meira færi í gang. Eftir að þrjár mínútur voru búnar glumdi í öllum hátölurum að rýma skildi húsið þannig að leikmenn söfnuðust saman við neyðarútgang en enginn fór út.“

Svipaða sögu má segja af miðaafgreiðslunni í kvikmyndahúsið en Pjetur Sigurðsson, ljósmyndari Vísis, var á staðnum og náði myndbandi af fólki að bíða í röð meðan boðið var leikið í öllum hátölurum hússins.

„Eftir smá stund hætti hávaðinn og leikurinn hófst á ný en tveimur mínútum síðar fór allt aftur í gang,“ segir Elvar Geir. Að endingu kom í ljós að um einhverskonar bilun í kerfinu var að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×