Innlent

Frestun frumvarps viðheldur óvissu í sjávarútvegi

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Sú staðreynd að ekkert frumvarp til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða líti dagsins ljós á þessu ári eru slæm tíðindi og þýðir að áfram verður óvissa í atvinnugreininni. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra upplýsti í fréttum okkar á föstudag að frumvarp til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða myndi ekki líta dagsins ljós á árinu. Hvorki á yfirstandandi þingi ná á haustþingi, vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna.

„Þetta eru vonbrigði. Við höfðum vonast til þess að sjá nýtt frumvarp og lög sem að myndu gera það að verkum að það yrði meira rekstraröryggi í greininni. Menn hefðu betri sýn á framtíðina,“ segir Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri SFS. Hann segir að þetta þýði að áfram verði óvissa í atvinnugreininni.

„Það að þetta sé ennþá hitamál og ennþá ósátt um þá þýðir það að óvissan er nokkur og það er vont fyrir atvinnugrein sem fjárfestingarfrek, eins og sjávarútvegurinn er.“

Þótt ekki verði lagt fram frumvarp til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða mun frumvarp um veiðigjöld líta dagsins ljós. Greint hefur verið frá því að frumvarpið byggi á þeirri aðferðafræði sem nú hefur verið reynd í 12 mánuði, að styðjast við sérstaka afkomustuðla við útreikning veiðigjalda.

„Við teljum að þetta fyrirkomulag sem veiðigjaldanefnd er búin að þróa núna sé það skásta sem við höfum séð hingað til vegna þess að þetta verður til þess að þegar vel gengur í veiðum einstakra tegunda þá hækkar gjaldið en þegar verr gengur þá lækkar það. Það er ákaflega mikilvægt til þess að ná því markmiði að gjaldið sveiflist miðað við afkomu,“ segir Kolbeinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×