Innlent

Fjöldi handtaka vegna fíkniefnasölu á samfélagsmiðlum

Samúel Karl Ólason skrifar
Við húsleitir í umdæminu tók lögreglan í sína vörslu kókaín, LSD og um 200 grömm af amfetamíni, auk kannabisefna. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Við húsleitir í umdæminu tók lögreglan í sína vörslu kókaín, LSD og um 200 grömm af amfetamíni, auk kannabisefna. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/GVA
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið á annan tug manna og lagt hald á talsvert af fíkniefnum á síðustu vikum. Aðgerðirnar beinast gegn sölu fíkniefna á samfélagsmiðlum, sem lögreglan telur verulega umfangsmikla.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni verður aðgerðunum haldið áfram, en allnokkrum Facebooksíðum hefur verið lokað vegna fíkniefnasölu.

Við húsleitir í umdæminu tók lögreglan í sína vörslu kókaín, LSD og um 200 grömm af amfetamíni, auk kannabisefna. Þá var einnig lagt hald á peninga sem taldir eru vera tilkomnir vegna fíkniefnasölu.

Lögreglan segir að aðallega hafi karlar á þrítugsaldri verið handteknir, en þar af var einnig ein kona á þrítugsaldri.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í einkaskilaboðum á Facebooksíðu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×