Innlent

Niðurrif Rammagerðarinnar væri slys í menningarsögu Reykjavíkur

Atli Ísleifsson skrifar
Reisa á hótel á lóð Rammagerðarinnar í Hafnarstræti.
Reisa á hótel á lóð Rammagerðarinnar í Hafnarstræti. Vísir/Rósa Jóhannesdóttir
Torfusamtökin segja að niðurrif Rammagerðarinnar væri slys í menningarsögu Reykjavíkur og til vansa fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Reykjavík. Slíkt muni rýra gæði hennar og ímynd.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að sá einlægi vilji eigenda Rammagerðarinnar, Hafnarstrætis 19, að rífa hið sögulega hús verði að teljast undarlegur sem og niðurstaða þeirra að húsið sé ónýtt á þann hátt að það kalli þannig á niðurrif þess.

„Líklegra er að hin raunverulega ástæða niðurrifs óska þeirra sé sú að húsið er á einhvern hátt ekki að fullu nýtanlegt til þeirrar starfsemi sem þeir sjá fyrir sér með hliðsjón af hámarks arðsemi.Húsið er með glæsilegri dæmum um íslenska steinsteypu-klassík frá fyrrihluta síðustu aldar, teiknað af Einari Erlendssyni húsameistara, einum helsta frumkvöðli þjóðarinnar í byggingarlist. Hafnarstræti 19 er einstakt, það er enn á sínum stað og í góðu ásigkomulagi. Minjagildi hússins felst að stórum hluta í húsinu sjálfu.

Það væri því sorgleg niðurstaða ef sú yrði raunin að upprunalegt og sögulegt hús í miðborg Reykjavíkur yrði rifið til byggja þar hótel-framhliðar eftirlíkingu af óvissum gæðum. Í borginni er nóg af auðum lóðum til að byggja á fyrir menn sem kunna ekki að fara með gömul hús og sögulegt umhverfi.

Í uppbyggingu ferðaþjónustu verður að vinna af ábyrgð gagnvart sögulegum minjum ekki síður en þegar um náttúru landsins er að ræða. Á því velta gæði og orðspor ferðaþjónustunnar. Niðurrif Rammagerðarinnar væri slys í menningarsögu Reykjavíkur og til vansa fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Reykjavík og mun rýra gæði hennar og ímynd,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×