Innlent

Forsætisráðherra styður krónutöluhækkanir launa

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra segir að krónutöluhækkanir launa hafi skilað þeim launalægstu kjarabótum. Svigrúm sé til að bæta kjörin.
Forsætisráðherra segir að krónutöluhækkanir launa hafi skilað þeim launalægstu kjarabótum. Svigrúm sé til að bæta kjörin. vísir/gva
Forsætisráðherra mælir með kjarasamningum sem fela í sér krónutöluhækkun launa eins og Starfsgreinasambandið hefur krafist í viðræðum sínum við Samtök Atvinnurekenda. Slíkir samningar hafi skilað þeim lægstlaunuðu bestri niðurstöðu og hægt sé að gera enn betur í komandi samningum. Stjórnvöld séu tilbúin til samstarfs við aðila vinnumarkaðrins.

Öll nítján aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hafa afhent Samtökum atvinnulífsins kröfur sínar. Af þeim eru sextán félög í samfloti með kröfu um 300 þúsund króna lágmarkslaun á samningi til þriggja ára. En Efling, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur sem ganga saman undir nafninu Flóbandalgið, treysta ekki stjórnvöldum til svo langs tíma og vilja samning til eins árs.

Í fréttum okkar í gær kom fram að samtök atvinnulífsins meta kröfur Flóbandalagsins upp á 20 prósent launahækkun og segja kröfur þess og Starfsgreinasambandsins almennt, óaðgengilegar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Viðskiptaþingi í gær að ríkið hefði ekki leitt launahækkanir með nýliðnum samningum við kennara og lækna.

„Ríkið semur aðeins við um 10 prósent vinnumarkaðarins. Ríkið samdi við tæp 90 prósent starfsmanna ríkisins með líkum hætti og almenni vinnumarkaðurinn hafði áður gert,“ sagði Sigmundur Davíð.

Launaskrið hefði verið meira á almenna markaðnum undanfarin tíu ár og samningar bæði við lækna og kennara fælu í sér breytingar sem væru hagstæðar ríkinu hvað varðaði vinnutíma og fleira.

Í viðtali við Stöð 2 í gær sagði forsætisráðherra að stjórnvöld væru reiðubúin til samstarfs við aðila vinumarkaðarins, m.a. um húsnæðismál og áhrif jaðarskatta og tekjutengingar bóta, til að tryggja skynsama kjarasamninga. En svigrúm væri til staðar til að bæta kjör almennings.

Traustið er hins vegar ekki til staðar á stjórnvöldum eins og fram kemur hjá Sigurði Bessasyni formanni Eflingar.

„Við höfum reynslu frá síðustu fjárlagagerð og fjárlögum. Vegna þess að þar voru rofin samkomulög sem gerð höfðu verið við aðila vinnumarkaðrins fyrir nokkrum árum. Það er síðan talað um breytingar á sköttum og skattakerfinu. Þannig að við viljum bara hafa vaðið fyrir neðan okkur,“ segir Sigurður.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur, VR, sem er með um 30 þúsund félagsmenn, kynnir Samtökum atvinnulífsins kröfugerð sína klukkan tvö í dag. Þá hafa verkalýðsfélög með hátt í sextíu þúsund félagsmenn sett fram kröfur sínar en innan Alþýðusambandsins eru verkalýðsfélög með um 100 þúsund félagsmenn.

Forsætisráðherra sagði á viðskiptaþingi í gær að hann hafi um skeið mælt með krónutöluhækkunum launa.

„Ég geri mér grein fyrir því að krónutöluhækkanir hafa haft tilhneigingu til þess að rata upp allan launastigann í formi prósenta. En það er þó ekki náttúrulögmál. Ef litið er til síðustu átta ára hafa krónutöluhækkanir leitt til þess að lægstu launin hafa hækkað hlutfallslega meira en meðallaunin. Það er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut og gera enn betur,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×