Innlent

Læk skiptir máli en getur haft slæmar afleiðingar í för með sér

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Hvað er „læk“? Er lækið kannski eitthvað meira en bara „vel gert“? Hefur það dýpri merkingu? Að þessu var spurt á morgunverðarfundi Advania um áhrif samfélagsmiðla á börn og unglinga. Yfirskrift fundarins var: „Lífið er læk“.

Spurningunni er ekki auðsvarað og skoðanir á þessu einfalda „læki“ eru afar misjafnar, eins og komist var að á fundinum í morgun. Um fjórtán prósent nemenda í 8. til 10. bekk á höfuðborgarsvæðinu verja meira en fjórum klukkustundum eða meira á samskiptamiðlum á degi hverjum, og um 15 prósent nemenda á landsbyggðinni. Það nemur hálfum vinnudegi, en þarna er ekki tekin með önnur tölvunotkun, sem og tölvuleikjanotkun.

Sífelldur samanburður

„Læk“ skiptir miklu máli í lífi unglinga að sögn Hrefnu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Heimilis og skóla, sem tók fyrst til máls. „Félagslífið er að miklu leyti á netinu og það skiptir máli að fá læk. Sumir unglingar eru jafnvel með aðganga til að læka oftar á myndirnar sem þeir eru að pósta. Oft er það þannig að ef þú færð ekki læk þá er verið að útiloka þig. Þú ert ekki vinsæll, ekki æskilegur,“ sagði Hrefna. Foreldrar þyrftu að stíga inn í, því netið og lækin mættu ekki taka yfir sjálfsímynd barnsins. Með þessu beri þau sig sífellt saman við aðra og það geti leitt af sér þunglyndi.

Frá fundinum í morgun.vísir/gva
Þessi stöðugi samanburður á þó ekki einungis við um börn og unglinga, að sögn Hrefnu. Hún segir það algengt að fólk, börn og fullorðnir, búi sér til eins konar „gerviheim“ eða glansmynd af lífi sínu. Þegar fólki finnst það svo ekki standast samanburð geti það leitt af sér þunglyndi, eða Facebook þunglyndi eins og Hrefna orðaði það. 

Hægist á þroska

„Þetta er í raun eins og dæmigert þunglyndi sem getur orðið til þess að unglingar loka sig af eða draga sig í hlé. Sumir leita sér hjálpar á vafasömum síðum, sem til dæmis hvetja til vímuefnanotkunar, óábyrgs kynlífs eða sjálfsskaða.“

Þá sagði hún að einnig væru fjölmörg dæmi um að börn og unglingar glími við mikla streitu sökum internetsins og samfélagsmiðlanna allra. Áreitið sé gríðarlegt, sérstaklega þegar síminn klingi viðstöðulaust. „Ef þetta fer yfir mörkin þá getur þetta valdið ákveðnum kvíða eða streitu. Það getur orðið árátta að þurfa alltaf að bregðast við pípinu,“ sagði hún.

Hrefna sagði foreldra verða að stíga inn í, kynna sér hlutina og ræða við börnin. Leggja niður snjalltækin og kenna þeim skil á netheimum og raunheimum. „Einnig þarf að hafa í huga að ef þú ert að nota netið og tölvuleiki þá hefur það áhrif á samskiptahæfni og þroska. Það er vel þekkt að að það hægist á þroska eftir því sem aðilinn sekkur meira inn í heim tölvunnar.“


Tengdar fréttir

Líf foreldra á tækniöld ekki alltaf auðvelt

Hermann Jónsson, faðir og skólastjóri Advania-skólans, segir foreldra á tækniöld verða að afla sé þekkingar, því netið sé orðinn svo stór partur af lífi barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×