Innlent

Síbrotamaður dæmdur fyrir hylmingu og þjófnað

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn er meðal annars dæmdur fyrir að hafa haft 19 feta hraðbát að verðmæti fimm milljónum króna undir höndum þrátt fyrir að hafa verið ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið munum ólöglega fyrir eigendum.
Maðurinn er meðal annars dæmdur fyrir að hafa haft 19 feta hraðbát að verðmæti fimm milljónum króna undir höndum þrátt fyrir að hafa verið ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið munum ólöglega fyrir eigendum. Vísir/Valli
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Jónas Svan Albertsson í eins og hálfs árs fangelsi fyrir hylmingu, þjófnað, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot.

Maðurinn er meðal annars dæmdur fyrir að hafa haft 19 feta hraðbát að verðmæti fimm milljónum króna undir höndum þrátt fyrir að hafa verið ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið munum ólöglega fyrir eigendum. Bátnum var stolið úr áhaldahúsi í Hvalfirði í ágúst 2013 og fannst við Þingvallavatn nokkrum dögum síðar.

Maðurinn er einnig dæmdur fyrir að hafa haft sea-doo sæþotu undir höndum að verðmæti 1,5 milljón króna, þrátt fyrir að hafa verið ljóst að um þýfi væri að ræða. Tækið fannst í Grafarvogi eftir að hafa verið stolið frá bifreiðastæði við Langholtsveg. Einnig var hann dæmdur fyrir að hafa verið með stolinn heitan pott og rafmótor á heimili sínu í Mosfellsbæ.

Í dómnum segir að hann sé einnig dæmdur fyrir þjófnað með því að hafa farið með lykli sem hann hafði komist yfir, inn í íbúðarhúsnæði í Grafarvogi og „stolið þaðan 42“ sjónvarpi, tveimur macbook pro fartölvum, playstation 3 tölvu, geislaspilara, vínilspilara, peningaskáp, þremur myndavélum og appelsínugulri 66°N úlpu.“

Dómurinn fann manninn einnig sekan um að hafa haft 1,53 grömm af amfetamín í fórum sínum og að hafa ekið bíl undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Jónas er fæddur árið 1978 og hefur frá árinu 1995 tíu sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Auk þess að hljóta átján mánaða fangelsisdóm var hann jafnframt sviptur ökurétti ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×