Innlent

VR krefst 254 þúsunda lágmarkslauna

Heimir Már Pétursson skrifar
VR krefst þess að lægstu laun félagsmanna hækki um 40 þúsund krónur á mánuði og lágmarkslaun verði 254 þúsund krónur, í samningi sem gerður verði til eins árs. Kostnaður atvinnurekenda af þessu verði tæpir sjö milljarðar króna eða um 5,3 prósent.

Nú þegar VR hefur lagt fram kröfugerð sína hafa verkalýðsfélög með um 60 þúsund meðlimi lagt fram kröfur sínar. En um eitt hundrað þúsund manns eru í verkalýðsfélögum innan Alþýðusambandsins.

Samkvæmt þeim kröfum sem forysta VR lagði fyrir Samtök atvinnulífsins í dag myndu mánaðarlaun að meðaltali hækka um 24 þúsund krónur fyrir fullt starf. Að auki verði greidd svo kölluð launaþróunartrygging upp á 50 þúsund krónur, en frá þeirri upphæð myndu launahækkanir þess kjarasamnings sem er að renna út dragast frá.

Það myndi þýða að einstaklingur í fullri vinnu á lægstu taxtalaunum fengi 40 þúsund króna launahækkun eða leiðréttingu. Ef gengið yrði að kröfum VR hækkuðu lágmarkslaun úr 214 þúsund krónum í 254 þúsund.

Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR segir þetta raunhæfar kröfur.

„Að okkar eru þær það. Við lögðum fram mjög góðar og ítarlegar skýringar og útreikninga með okkar kröfugerð og byggjum á þeim að þetta séu mjög raunhæfar kröfur, já,“ segir Ólafía.

Samningurinn muni kosta viðsemjendur VR tæpa sjö milljarða króna að mati félagsins eða um 5,3 prósent. Aukinn kaupmáttur skili sér á móti til fyrirtækjanna því 75 til 80 prósent launa fari í einkaneyslu.

Þið viljið eingöngu semja til eins árs, hvers vegna ekki til lengri tíma?

„Það er einfaldlega vegna þess að við lítum svo á að staðan í dag sé ekki nægjanlega traust. Myndin er ekki nægjanlega skýr. Við höfum áhyggjur af hvernig við förum inn í afnám gjaldeyrishaftanna og svo er traustið til stjórnvalda einfaldlega ekki gott,“ segir Ólafía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×