Innlent

Áberandi ölvaður maður ók á umferðaskilti og kastaðist bíllinn á ljósastaur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Nokkuð rólegt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, miðað við önnur föstudagskvöld.

Lögreglan þurfti samt sem áður að sinna nokkrum útköllun en rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Reykjanesbraut við Kaldárselsveg.

Bifreiðin hafnaði á umferðarskilti og kastaðist þaðan á ljósastaur sem féll í götuna. Ökumaðurinn, karl tæplega fimmtugur var áberandi ölvaður. Hann gistir nú fangageymslu.

Í nótt var piltur undir tvítugu handtekinn í Hólahverfi. Hann hafði stolið úr bifreið sem stóð við heimahús og var hann með tösku í fórum sínum sem saknað var úr bifreiðinni. Hann var handtekinn skammt frá og gistir fangageymslu.

Á þriðja tímanum í nótt var karlmaður á fertugsaldri handtekinn eftir átök við dyraverði á bar í Austurstræti.

Maðurinn hafði áður angrað fólk á skemmtistaðnum og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu. Maðurinn var í annarlegu ástandi og verður kærður fyrir líkamsárás og kynferðislega áreitni við gesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×