Innlent

Má ekki koma nálægt fyrrverandi konu sinni og börnum

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að karlmaður skuli sæta nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni, syni þeirra og dóttur. Það var barnavernd sem lagði fram beiðni hjá lögreglustjóranum 3. febrúar síðastliðinn að manninum yrði gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili.

Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að maðurinn og konan skildu árið 2006 en eiga saman tvö börn. Með beiðni barnaverndar fylgdi greinargerð ásamt 22 fylgiskjölum en um er að ræða nokkuð langa sögu þar sem margsinnis hefur verið tilkynnt um ofbeldi af hálfu mannsins í garð konunnar og barna þeirra.

Óttast manninn

Starfsmenn barnaverndar ræddu við konuna og börnin í janúar síðastliðnum en í viðtölunum greindu þau frá líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu mannsins gagnvart þeim öllum en jafnframt kynferðisofbeldi gagnvart konunni. Þau greindi frá miklum ótta gagnvart manninum.

Konan gaf einnig skýrslu hjá lögreglu í febrúar en þar staðfesti hún að hún sætti andlegu-, líkamlegu- og kynferðislegu ofbeldi af hálfu varnaraðila og að hann beitti börn þeirra andlegu ofbeldi og drengnum jafnframt líkamlegu ofbeldi. Konan sagðist vera barnshafandi eftir varnaraðila og óttaðist mjög að verða fyrir ofbeldi af hans hálfu og að bæði hún og ófædda barnið hlytu skaða af.

Samþykkti nálgunarbann gagnvart konunni

Maðurinn neitaði sök við skýrslutöku hjá lögreglu og hafnaði þeim ásökunum um ofbeldi gagnvart eiginkonunni fyrrverandi og sagði að kynlíf þeirra hefði farið fram með samþykki beggja. Hann neitaði einnig alfarið að hafa beitt börnin ofbeldi.

Hann samþykkti nálgunarbann gagnvart eiginkonunni fyrrverandi en hafnaði því að þurfa að sæta nálgunarbanni gagnvart börnunum sínum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu taldi ljóst af gögnum málsins að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að varnaraðili hafi beitt konan og börnin ofbeldi, hótunum og kúgun og að miklar líkur séu á því að hann muni fremja refsiverð brot á ný gagnvart þeim.


Tengdar fréttir

Þrjú nálgunarbönn felld úr gildi

Hæstiréttur hefur á þremur dögum fellt úr gildi þrjú nálgunarbönn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn mönnum sem grunaðir eru um brot gegn fyrrverandi sambýliskonum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×