Innlent

Sló og tróð snjó í andlit tólf ára drengs á götu úti í Sandgerði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á tólf ára dreng á götu úti í Sandgerði. Maðurinn dró drenginn eftir götunni, henti upp að grindverki, veitti honum högg í andlit og tróð sömuleiðis í andlit hans snjó. Maðurinn áfrýjaði dómi í héraði til Hæstaréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjaness.

Drengurinn var að leik á götu úti ásamt þremur vinum sínum að kvöldi 28. desember 2012 þegar maðurinn kom að þeim. Bað hann drengina um að hjálpa sér við leit að syni sínum en drengirnir neituðu því. Brást maðurinn illa við neituninni og greip í einn drengjanna, dró hann eftir gangstíg og henti upp að grindverki. Þá tók hann snjó, nuddaði í andlit hans og kýldi hann stuttu síðar í vinstri kinn.

Brotaþoli náði að klæða sig úr úlpunni og hlaupa af vettvangi ásamt vini sínum. Hinir tveir höfðu þegar flúið af vettvangi. Hljóp hann heim til móður sinnar sem hafði samband við lögreglu. Var farið með drenginn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að fá áverkavottorð.

Reyndi að bíta og hrækja á lögreglu

Í skýrslu lögreglu kemur fram að hafist hafi leit að manninum en hann ekki verið heima þegar bar að garði. Lögreglumaður hafi hins vegar séð son ákærða sem hann kannaðist við og sá hafi fylgt lögreglumanninum heim til þeirra. Þá hafi maðurinn verið heima og mætt þeim mjög ógnandi.

„Þegar hann hafi sett aðra höndina upp og gert sig líklegan til að ráðast að þeim hafi (lögreglumaðurinn) ákveðið að handtaka hann.“

Í skýrslunni kemur fram að maðurinn hafi bæði reynt að bíta lögreglumennina og hrækja á þá. Skýrslutöku yfir honum hafi verið frestað sökum ölvunar. Lögreglumaðurinn hringdi í son ákærða til að athuga hvort hann sæi úlpu drengsins á heimili þeirra. Þar reyndist hún vera og var henni ekið af lögreglu á heimili drengsins sem fyrir árásinni varð.

Frá Sandgerði.Vísir
Sagðist vera að grínast

Ákærði bar því við að hann hefði orðið var við að drengirnir væru að kasta snjóboltum í hús og rætt við þá af þeim sökum. Hann hefði beðið drengina um aðstoð og gengið af stað með einum þeirra í átt að skólanum þar sem hann taldi son sinn geta verið. Drengurinn hefði ekki mótmælt því en mögulega verið hræddur þar sem hann hefði skammað þá fyrir snjóboltakast.

Maðurinn neitaði að hafa kýlt drenginn og valdið honum áverkum á kinn en viðurkenndi að hafa sett snjó í andlit hans. Um grín hefði verið að ræða. Hann sagðist vel muna eftir atburðum dagsins þó svo vel geti verið að hann hafi verið búinn að fá sér einn bjór um klukkan sex eða rúmlega þremur tímum áður en leiðir hans og drengjanna lágu saman. Hann hafi svo fengið sér þrjá drykki eftir að hann kom heim eftir að hafa hitt drengina en ekki verið drukkinn.

Drengirnir samstíga

Vitnisburður drengjanna fyrir dómi um atburði kvöldsins var efnislega á sama veg. Auk drengsins sagði vinurinn sem eftir varð að maðurinn hefði kýlt drenginn í andlitið. Aðspurður um áverkana taldi hann þá ekki heldur geta stafað af hörku þegar hann tróð snjó í andlit drengsins. Líklega hefði drengurinn meitt sig þegar hann slapp úr úlpunni.

Allir drengirnir þrír báru því við að maðurinn hefði verið ölvaður þegar hann réðst á drenginn. Drengurinn sagði bæði í frumskýrslu og við skýrslutöku nokkrum dögum síðar að maðurinn hefði kýlt sig með krepptum hnefa vinstra megin í andlitið.

Í báðum tilfellum sagði hann manninn hafa sagt „Ég lemja“ áður en hann reiddi til höggs. Hann mundi þó við aðalmeðferð ekki hvort hnefinn hefði verið krepptur en höggið hefði verið fast og hann svimað „bara eitthvað smá“. Þótti dómnum hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði veitt drengnum högg þótt ósannað væri að hnefinn hefði verið krepptur.

Maðurinn sagði alla í Sandgerði þekkja þessa stráka. Um væri að ræða hóp sem héldi sig saman og gerði „alls konar hluti“.Vísir/Stefán
Drengurinn hræddur eftir árásina

„Telja verður að með atlögu sinni að brotaþola hafi ákærði sýnt af sér yfirgang og ruddalega framkomu gagnvart brotaþola sem aðeins var barn að aldri,“ segir í dómnum. Þótti sú háttsemi sem maðurinn var ákærður fyrir sönnuð að frátöldu því hvort um krepptan hnefa hefði verið að ræða eða ekki.

Móðir drengsins sagði við aðalmeðferðina að sonur hennar hefði verið kvíðinn og hræddan eftir árásina, en hann vilji ekki viðurkenna neitt slíkt sjálfur. Hún taki hins vegar eftir „alveg rosalegum breytingum á honum gagnvart kvíða og hræðslu“.

Það hafi verið erfitt að fá drenginn til að fara í skólann og árásin hafi haft slæm áhrif. Þá hafi sonur mannsins ítrekað spurt hann út í árásina sem sonur hennar hafi tekið mjög illa. Annar strákur hafi ekki látið hann í friði. Árásin hafi haft rosalega leiðinleg áhrif á drenginn í skólanum og gagnvart hans skólagöngu.

200 þúsund í bætur

Héraðsdómur dæmdi manninn í apríl í fyrra í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Þá voru drengnum dæmdar 200 þúsund krónur í miskabætur en farið hafði verið fram á 800 þúsund krónu. Hæstiréttur staðfesti svo dóm í héraði á dögunum.

Dóm Hæstaréttar í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×