Innlent

Hugmyndin kviknaði á líknardeildinni

Edda Sif Pálsdóttir skrifar
Örvar Friðriksson missti konuna sína, Berglindi Guðmundsdóttur, í október síðastliðnum eftir sjö ára baráttu við krabbamein. Þegar hann renndi í gegnum símann hennar á líknardeildinni blöstu við honum auglýsingar frá ferðaskrifstofum og datt honum þá í hug að reyna að færa heiminn til þeirra sem af einhverjum ástæðum geta ekki ferðast. 

„Hvað ef með núverandi tækni, drónum og tækni sem er að ryðja sér til rúms núna; sýndarveruleika, að geta komið með heiminn til fólks í svipaðri stöðu og Berglind var í? Og í rauninni til allra sem geta ekki ferðast og breytt lífi þeirra. Hvað ef ég get gert það?,“ spyr Örvar sem hefur unnið mikið síðustu ár við upplýsingatækni. 

Hugmyndin snýst um að geta með sýndarveruleika staðið á sviði með uppáhalds hljómsveitinni sinni eða ferðast á framandi staði, litið til allra átta og upplifað sig eins og maður væri á staðnum. 

„Um leið og ég var búinn að jarða hana fór ég til New York í Bandaríkjunum og leitaði mér tengsla til að sjá hvort þetta væri raunhæfur möguleiki.“ Örvar hefur fengið góð viðbrögð, meðal annars hjá Google, og er nú nýkominn heim úr sinni annarri Ameríkureisu. Fyrirtæki hans stefnir á að hefja framleiðslu strax í næsta mánuði.

Hægt er að horfa á allan þáttinn af Íslandi í dag í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×