Innlent

Á hundrað og tuttugu klukkur í Þorlákshöfn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þórarinn Grímsson í Þorlákshöfn veit hvað tímanum líður því hann á hundrað og tuttugu klukkur, sem hann hefur safnað á síðustu tveimur árum. Þá á nágrannakona hans fimm hundruð lyklakippur.

Klukkurnar eru út um allt inn á heimili Þórarins og konu hans, inn í herbergjum,stofunni, forstofunni og nokkrar þeirra eru út í bílskúr. Fimmtudaginn 15. janúar ætlar Þórarinn að sýna allar klukkurnar sínar á sýningu sem verður opnuð þá í Gallerí undir stiganum, sýningarrými Bæjarbókasafns Ölfuss í Þorlákshöfn.

„Ég byrjaði fyrir tveimur árum að safna klukkunum og svo vatt þetta bara upp á sig og þær urðu fleiri og fleiri. Barnabörnin fóru að telja klukkurnar síðasta í sumar, þá voru þær orðnar hundrað og sjö held ég, í dag eru þær um hundrað og tuttugu. Það bætist ein og ein við þegar ég sé sniðugar klukkur“, segir Þórarinn aðspurður af hverju hann eigi þessar klukkur.

Hann segir að flestar klukkurnar séu réttar. „Ég hugsa að það séu kannski sjö, átta sem eru ekki alveg réttar, eru bilaðar og ganga ekki, ég hef ekki náð að koma þeim af stað“. En er Þórarinn mikill klukkumaður, mættir alltaf á réttum tíma ? „Ég reyni það, en það mistekst nú stundum, þá gleymi ég að kíkja á klukkuna“, segir hann hlægjandi.

Það er ekki bara Þórarinn sem hefur gaman af því að safna hlutum í Þorlákshöfn því Ragna Erlendsdóttir, sem er sennilega þekktust fyrir að vera móðir Jónasar Sigurðssonar, tónlistarmanns safna lyklakippum og á nú 500 kippur inn í bílskúr hjá sér, auk fallegs steinasafns. Hún þiggur fleiri kippur ef einhver á og væri til í að senda henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×