Innlent

Telur ný húsaleigulög meingölluð og vond

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, segir að frumvarp um breytingar á húsaleigulögum muni skaða leigumarkaðinn og gera hann ófriðlegan. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, segir að frumvarp um breytingar á húsaleigulögum muni skaða leigumarkaðinn og gera hann ófriðlegan. Fréttablaðið/Vilhelm
„Lagahringl á ekki að viðgangast á svona viðkvæmum sviðum. Þetta frumvarp er vont og meingallað um flest og mun skaða leigumarkaðinn og gera hann erfiðari og ófriðsamlegri,“ segir Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, um nýtt húsaleigulagafrumvarp Eyglóar Harðardóttur félagsmálaráðherra.

Sigurður segir frumvarpið, sem var afgreitt úr ríkisstjórn á mánudag, vera afturhvarf til laga sem giltu til ársins 1994 áður en ný lög voru samþykkt sem, að hans sögn, hafa virkað vel í yfir 20 ár og fundu jafnvægi milli leigusala og -taka.

„Húsaleigulögin eru leikreglurnar sem gilda á þessum markaði. Þetta kemur til dæmis framboði á leiguhúsnæði eða leigubótum ekkert við. Ég er búinn að harka í þessum bransa í um 40 ár, sem lögmaður, kennari og prófdómari í húsaleigurétti. Ég myndi gefa þessari löggjöf falleinkunn,“ segir Sigurður.

Hann segir nokkur atriði frumvarpsins beinlínis háskaleg.

„Það er mjög vanhugsað að fella niður ákvæði sem undanskilur lögin frá leigu til ákveðinna hópa, það er sérstakra félagasamtaka, eins og til dæmis námsmanna, aldraðra eða öryrkja. Þetta ákvæði er forsenda þess að félagasamtök sem leigja til þessara hópa geti stundað sína starfsemi. Þetta mun rústa leigustarfsemi til dæmis Félagsbústaða, Félagsstofnunar stúdenta og fleiri,“ segir Sigurður og bætir við að mun fleira megi gera athugasemdir við í þessu frumvarpi.

Sigurður gerir einnig athugasemdir við að ekkert samráð hafi verið haft við Húseigendafélagið við samningu frumvarpsins.

„Við erum tæplega 100 ára félag en frumvarpið er samið af fólki sem hefur enga reynslu af húsaleigu, löggjafarstarfsemi eða lagasmíð. Þetta er úr öllum tengslum við raunveruleikann,“ segir Sigurður og bætir við að breytingarnar sem í frumvarpinu felast séu annaðhvort til óþurftar eða eyðileggingar.

„Hvers vegna að laga það sem ekki er bilað? Frumvarpið í heild er vont og viðvaningslegt og eyðileggur allar helstu réttarbætur laganna frá árinu 1994. Þá hafði leigumarkaði næstum því verið útrýmt og leigusalar létu húsnæði frekar standa autt en að leigja það út. Ég vona að þessa frumvarps bíði þrautarmeðganga og andvana fæðing,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×