Innlent

Mikilvægt að greina einhverfu snemma

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Þetta er í áttunda sinn sem að 2. apríl er helgaður einhverfu.
Þetta er í áttunda sinn sem að 2. apríl er helgaður einhverfu. Vísir/Getty
Mikilvægt að greina einhverfu hjá fólki snemma á ævinni þar sem gríðarlegur árangur næst oft hjá þeim börnum sem greinast fyrir fimm ára aldur. Þetta segir formaður stjórnar Styrktarfélags barna með einhverfu en alþjóðlegur dagur einhverfu er í dag.

Þetta er í áttunda sinn sem að annar apríl er helgaður einhverfu. „Út um heim allan þá er í dag verið að fagna í raun og veru því og vekja athygli á málefnum einhverfra og hér á Íslandi þá er dagurinn oft nýttur til þess bara hreinlega að reyna að opna fyrir þessa umræðu um hvað einhverfa er og sem sagt slá á þessar ranghugmyndir og mýtur sem að oft eru í gangi,“ segir Ragnhildur Ágústdóttir móðir tveggja drengja með einhverfu og formaður stjórnar Styrktarfélag barna með einhverfu.

Ragnhildur segir fólk oft hafa ranga og ýkta mynd af einhverfu sem sé jafnvel lituð af því sem það sér í kvikmyndum eins og myndinni Rain Man. „ Þar eru svona ýkt dæmi sem að jú vissulega gerast en þau eru bara mun sjaldgjæfari heldur en hitt. Það eru líka til bara mjög mikið af einstaklingum sem eru einhverfir og það sést ekkert utan á þeim,“ segir Ragnhildur.

Ragnhildur segir að talið sé að um eitt prósent fólks sé með einhverfu. Undanfarið hafi þeim fjölgað sem greinast á fullorðinsárum. Hún segir það mikilvægast að greiningar komi snemma á ævinni. „ Það er oft talað um það að það sé gríðarlega mikilvægt að börn greinist fyrir fimm ára aldur af því þá eru þau svo móttækileg og þá er svo mikið hægt að gera. Þá er hægt að byrja markvissa þjálfun,“ segir Ragnhildur og að með þessari þjálfun sé oft hægt að ná gríðarlegum árangri.

Styrktarfélag barna með einhverfu stendur í apríl í annað sinn fyrir styrktar- og vitundarátakinu Blár apríl. Stofnanir og fyrirtæki verða meðal annars lýst upp í bláum lit þennan mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×