Innlent

Sakar ABC á Íslandi um mútur í Kenía

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
„Þetta gera þau til þess að taka yfir okkar starfsemi með valdi,“ segir Þórunn Helgadóttir.
„Þetta gera þau til þess að taka yfir okkar starfsemi með valdi,“ segir Þórunn Helgadóttir. mynd/gunnarsalvarsson
„Ég hef byggt upp starfið í Kenía síðan 2006 í samstarfi við samtökin á Íslandi og hef helgað líf mitt starfinu í Kenía og svo halda þau bara að þau geti tekið það allt af mér,“ segir Þórunn Helgadóttir, formaður ABC barnahjálpar í Kenía.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að deilur stæðu nú á milli ABC barnahjálpar í Kenía og ABC barnahjálpar á Íslandi. Þá var greint frá því að Þórunni hefði verið sagt upp störfum hjá ABC barnahjálp en hún væri föst á því að staða hennar í Kenía væri óbreytt, enda væri um tvö sjálfstæð félög að ræða. ABC barnahjálp á Íslandi heldur því hins vegar fram að félagið eigi ABC í Kenía og að Þórunn sé ekki lengur starfsmaður.

„Ég er með samstarfssamning í höndunum sem sýnir það skýrt að félögin eru tvö sjálfstæð félög og hafa samtökin því enga heimild til þess að segja mér upp,“ segir Þórunn og bætir við að samkvæmt lögum í Kenía reki hún félagið.

Árið 2006 fór Þórunn til Kenía fyrir hönd ABC til að skoða aðstæður fyrir uppbyggingu nýs skóla í fátækrahverfum í Naíróbí. Allar götur síðan hefur Þórunn helgað líf sitt hjálparstarfinu í Kenía og verið formaður félagsins.

„Þetta er ótrúlega sársaukafullt og við eiginmaður minn höfum lagt allt okkar líf í starfið og séð til þess að halda hjálparstarfinu á floti.”

Þá sakar Þórunn ABC barnahjálp á Íslandi um mútur. Hún segir að stjórnin á Íslandi beri fé í einstaka starfsmenn innan skólans í Kenía. „Þetta gera þau til þess að fá starfsmennina til að taka yfir skólann með valdi og taka yfir okkar starfsemi með valdi,“ segir Þórunn sem kveðst hafa áreiðanlegar heimildir fyrir ásökunum sínum. „Mér finnst þessi framganga siðlaus.“

Þá segir Þórunn að verst finnist henni að í kjölfar samstarfsslita félaganna missi hún styrktaraðila sem félagið í Kenía hafði fyrir milligöngu félagsins á Íslandi. „Það eru engir peningar að berast til félagsins úti núna og við missum þá styrktaraðila sem við höfum haft,“ segir hún.

Þórunn telur uppsögnina hafa komið í kjölfar þess að hún hafi ekki talið heppilegt að sameinast sænskum samtökum sem ABC barnahjálp á Íslandi hefur ákveðið að gera. „Það er ekkert sem við höfum gert í okkar starfi sem kallar á þessa framkomu af hálfu félagsins á Íslandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×