Innlent

Tryggvi áfram umboðsmaður

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fékk hins vegar ekki hærri fjárframlög.
Fékk hins vegar ekki hærri fjárframlög. Vísir/GVA
Tryggvi Gunnarsson var endurkjörinn umboðsmaður Alþingis til fjögurra ára á laugardag með 43 atkvæðum. Níu þingmenn greiddu ekki atkvæði með skipuninni og skiluðu því auðu í kjörinu. Ekki liggur fyrir hverjir það voru þar sem kosningin fór fram með leynd. 

Gagnrýndur af valdhöfum

Tryggvi hefur sætt harðir gagnrýni á síðustu árum; sérstaklega fyrir frumkvæðisathugun sína á lekamálinu svokallaða en hann komst að þeirri niðurstöðu í janúar síðastliðnum að samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem fór með rannsókn lekamálsins, hafi ekki samræmst valdsvið hennar.

Bjarni Benediktsson gerði til að mynda alvarlega athugasemdir við að bréf hans til Hönnu Birnu hafi verið gert opinbert áður en hún hafði tækifæri til að svara því.

Í apríl gagnrýndi hann stjórnsýsluhætti Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir það hvernig staðið var að ákvörðun um að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði og norður á Akureyri en hann hefur einnig gert athugasemdir við sýslu Seðlabanka Íslands með eignir í gegnum einkahlutafélagið Eignasafn Seðlabanka Íslands.

Fékk ekki meira fé sem vantaði

Fréttablaðið fjallað um í morgun um að fjárskortur stæði frumkvæðisathugun umboðsmanns fyrir þrifum. Frumkvæðisathuganir eru verkfæri sem embættið hefur til að hafa eftirlit með stjórnvöldum án þess að kvörtun berist embættinu fyrst; til dæmis út frá fjölmiðlaumfjöllun.

Kjarninn fjallaði um það fyrr í mánuðinum að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd teldi það grundvallaratriði að embættið fengi aukið framlag. Á það var hins vegar ekki fallist í fjárlaganefnd en það fór svo að fallið var frá fyrirhuguðum þrettán milljóna niðurskurði til umboðsmanns.

Skipun Tryggva tekur gildi um ára mótin en hann hefur gegnt embættinu frá árinu 1998 en skipun hans rennur næst út í lok árs 2019. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×