Innlent

Illa hannaður búnaður og óöruggt starfsumhverfi orsök slyssins á Perlu

Atli Ísleifsson skrifar
Dýpkunarskipið Perla hóf árið 2010 að dæla sandi upp úr Landeyjahöfn. Myndin til hægri sýnir vettvang og sjólögnina sem stúturinn losnaði af.
Dýpkunarskipið Perla hóf árið 2010 að dæla sandi upp úr Landeyjahöfn. Myndin til hægri sýnir vettvang og sjólögnina sem stúturinn losnaði af. VÍSIR/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON/Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Illa hannaður búnaður og óöruggt starfsumhverfi voru orsakir slyssins um borð í sanddæluskipinu Perlu í Landeyjahöfn í apríl síðastliðinn þar sem skipverji slasaðist mikið.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Í skýrslunni segir að skipverji hafi verið einn að vinna við að spúla lestina og haldið í handfang, fast við hosu, sem losnaði af með þeim afleiðingum að maðurinn kastaðist með henni ofan í lestina.

Skipverjinn lenti meðal annars á járnbita og slasaðist mikið. Í frétt Vísis af slysinu kemur fram að maðurinn hafi tvíbrotnað á læri, brákast á öxl og að minnsta kosti einn hryggjarliður hafi brotnað.

Nefndin segir að hinn slasaði hafi verið að stýra skolstút með tveggja metra handfangi sem soðið var fast á stútendann og staðið á palli milli lestanna. Stúturinn sem losnaði var á gúmmíbarka sem festur var við sjólögnina og handfangið fest í enda hans. „Ekki er vitað af hverju stúturinn losnaði en skipverjinn náði ekki að sleppa handfanginu í tíma.“

Mikill þrýstingur og titringur var á lögninni enda lokað fyrir alla aðra stúta á henni og reglulega hafði þurfi að herða upp á hosuklemmum fyrir gúmmíbarkann.

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér.

Sanddæluskipið Perla sökk í Reykjavíkurhöfn í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×