Innlent

Vilja úttekt á ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Landssamband eldri borgara vill að gerð verði úttekt á ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi. Þá vilja þau að skipaður verði sérstakur réttargæslumaður fyrir aldraða.

Fjölmennt var á ráðstefnu sem haldin var í gær um ofbeldi gegn öldruðum. Þeir sem starfa með öldruðum hér á landi segja ofbeldi gegn þessum hópi vera staðreynd. Ofbeldið eigi sér stað bæði í heimahúsum og á stofnunum. Þá geti gerendurnir verið aðstandendur, starfsfólk á stofnunum, nágrannar og jafnvel aðrir vistmenn á stofnunum.

Fram kom á ráðstefnunni að birtingarmyndir ofbeldisins geti verið mismunandi. Ofbeldið geti verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt og jafnvel um vanrækslu að ræða. Engar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á því hversu umfangsmikið ofbeldið er. Erlendar rannsóknir sýna að allt að 10% aldraðra eru þolendur ofbeldis. Landssamband eldri borgara vill að slíkar rannsóknir verði gerðar á Íslandi.

„Við viljum virkilega að það sé gerð könnun á þessu hér. Að það sé settur á fót einhver rannsóknarhópur sem að gerir úttekt á því hvernig staðan er hér á landi,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir fyrrverandi formaður Landssambands eldri borgara.

Hún segir hagsmunahópa aldraðra hafa fengið fyrirspurnir og símtöl vegna ofbeldismála. „Ég veit að til dæmis hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík, þar hafa þeir orðið varir við svona lagað,“ segir Jóna Valgerður.

Hún segir þessi mál lítið hafa verið rædd og mikilvægt sé að umræðan fari fram. Þá þurfi að huga betur að réttindamálum aldraðra. „Það þarf líka að setja á fót einhvern réttargæslumann til dæmis, fyrir aldraða, rétt eins og er hjá fötluðum. Það er alveg nauðsynlegt að fara að koma á fót einhverju slíku embætti gagnvart öldruðum,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×