Innlent

Sýknaður af nauðgun því ásetninginn skorti

Snærós Sindradóttir skrifar
Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands af nauðgun því ekki tókst að sanna að hann hefði ætlað sér að nauðga sautján ára samstarfskonu sinni.
Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands af nauðgun því ekki tókst að sanna að hann hefði ætlað sér að nauðga sautján ára samstarfskonu sinni. vísir/hari
Á mánudag var karlmaður sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands af nauðgun því ekki tókst að sanna að hann hefði ætlað sér að nauðga sautján ára samstarfskonu sinni. Ekki var dregin í efa upplifun konunnar og áfall eftir atvikið. Nánar um dóminn hér.

Rakið er í dómnum að á grundvelli hegningarlaga megi ekki refsa fyrir gáleysi nema sérstakt lagaákvæði segi svo. Ekkert slíkt sé til fyrir nauðgunarákvæði laganna.

Í dómnum eru reifaðar athugasemdir sem fylgja kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga:

„Þá segir í athugasemdunum að þegar ákærði neiti sök sé oft mjög erfitt að sanna huglæga afstöðu hans til verknaðarins og því verði dómstólar þá að meta hverju ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir, en þannig tvinnist þá oft saman sakarmat og sönnunarmat.“

Sjá einnig:Sýknaður af ákæru um nauðgun eftir árshátíð

Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósentvísir/Valli
Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir að í þessu máli meti dómurinn það svo að skynsamlegur vafi sé um sekt ákærða.

„Sönnun í kynferðisbrotum er oft snúin þar sem orð er gegn orði og ekki öðrum sönnunargögnum til að dreifa sem styðja framburð þolandans umfram framburð gerandans,“ segir Svala.

„Það má ekki gleymast að í refsirétti verður maður eingöngu sakfelldur ef hann hefur haft ásetning til að fremja brot, nema heimilt sé að refsa fyrir gáleysisverknað. Ásetningur er fortakslaust skilyrði refsiábyrgðar fyrir nauðgun,“ segir Svala Ísfeld Ólafsdóttir. 

Nauðgun af gáleysi í norskum lögum

Samkvæmt BA-ritgerð Margrétar Berg Sverrisdóttur frá 2013 sem ber heitið: Nauðgun af gáleysi. Eru skilyrði til þess að lögfesta ákvæði um refsiábyrgð vegna nauðgunar af gáleysi?, er að finna í norskum lögum ákvæði um að nauðgun af stórkostlegu gáleysi varði fimm ára fangelsi.

Í ritgerðinni segir: „Nefndin sagði það sterk rök fyrir setningu ákvæðisins að staða brotaþola yrði betri fyrir vikið og ekki taldi hún að ákvæðið væri í andstöðu við réttarríkið. Hún taldi að með ákvæðinu fælust skýr skilaboð um að samfélagið sætti sig ekki við þessa hegðun. Einnig var litið til þess að margir fulltrúar brotaþola sem höfðu góða innsýn í stöðu þeirra, mæltu með því að nauðgun af gáleysi yrði gerð refsiverð“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×