Innlent

„Ég get ímyndað mér að þetta hafi bara verið eins og að vera í stórskotahríð“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Móðir þriggja ára stúlku, sem slasaðist eftir að hafa fengið flugeld í andlitið á gamlárskvöld, segir mikla mildi að hún sé heil á húfi. Fjölskyldan er í  áfalli eftir atvikið og vill að lög og reglur um sölu og meðhöndlun flugelda verði endurskoðuð.

Edda Blumenstein fagnaði áramótunum í Vesturbæ Reykjavíkur og fór rétt fyrir miðnætti út ásamt Emmu, þriggja ára dóttur sinni, til að fylgjast með flugeldunum. Þar sáu þær hvar stór skotterta, sem kveikt var í skammt frá þeim, datt á hliðina.  

Kalla þurfti til sjúkra­bíl og lög­reglu en Edda segir viðbrögð þeirra hafa verið mjög góð. Bæði barnið og fjölskyldan öll hafi verið í miklu áfalli á þeim tímapunkti.

„Ég get ímyndað mér að þetta hafi bara verið eins og að vera í stórskotahríð. Það bara dundu á okkur skotin,“ segir Edda í samtali við fréttastofu. Hún segir dóttur sína vera í miklu sjokki.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að hérlendis séu leyfðir stærri flugeldar en í nágrannalöndum og reglugerð um slík mál sé í raun úr sér gengin. Edda segist vilja umbætur í meðferð og sölu flugelda.

„Þetta á bara að vera á sýningum þar sem að fagaðilar sjá um þetta og kunna að bregðast við ef hætta skapast.“

Edda spyr hvort einhver þurfi að láta lífið áður en einhverju verði breytt varðandi reglugerðir um flugelda, en nánar er rætt við hana í myndskeiðinu hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×