Enski boltinn

Þriðji leikmaðurinn slítur krossband hjá nýliðunum og nú er það markaskorarinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Callum Wilson liggur meiddur.
Callum Wilson liggur meiddur. vísir/getty
Callum Wilson, framherji nýliða Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni, er alvarlega meiddur og verður ekki með næsta hálfa árið.

Wilson var borinn af velli eftir 17 mínútur í 2-1 tapi Bournemouth gegn Stoke um helgina, en í ljós kom í læknisskoðun að hann sleit krossband í hægra hnénu.

Framherjinn fer í aðgerð í næstu viku áður en hann hefur endurhæfingu. Hann verður í fyrsta lagi klár í mars á næsta ári.

Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Bournemouth, en Wilson hefur verið einn besti maður liðsins og skorað fimm mörk í sjö fyrstu umferðunum.

Nýliðarnir hafa ekki verið heppnir með meiðsli í fyrstu umferðum ensku úrvalsdeildarinnar, en tveir lykilmenn sem keyptir voru fyrir samtals 19 milljónir punda fyrir leiktíðina slitu krossband í sama leiknum fyrr á leiktíðinni.

Þetta eru hægri bakvörðurinn Tyrone Mings sem keyptur var frá Ipswich fyrir metfé hjá félaginu og Max Gradel sem kom til Bournemouth frá St. Étienne fyrir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×