Innlent

Mest ánægja með leikskóla á Akranesi

ingvar haraldsson skrifar
Mikil ánægja er með leikskóla á Akranesi, þar á meðal með leikskólann Vallarsel.
Mikil ánægja er með leikskóla á Akranesi, þar á meðal með leikskólann Vallarsel.
Mest ánægja er með leikskóla á Akranesi samkvæmt nýrri könnun Capacent sem náði til nítján stærstu sveitarfélaga landsins. Akraneskaupstaður fékk einkunnina 4,5 af 5 mögulegum en meðaltalið á landsvísu er 3,8.

„Þetta er mjög athyglisvert þar sem kostnaður á íbúa er einna lægstur hér á Akranesi við rekstur leikskólanna en við erum samt sem áður með næsthæsta hlutfall landsins af menntuðum leikskólakennurum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri en 63 prósent af starfsmönnum leikskóla í sveitarfélaginu voru leikskólamenntaðir árið 2013.

Í könnuninni kemur einnig fram að helst þurfi að bæta þjónustu á sviði íþrótta- og tómstundamála í bæjarfélaginu, en 27 prósent íbúa á Akranesi telja að bæjarfélagið þurfi að efla þjónustu á því sviði.

Könnun Capacent náði til átta þúsund íbúa í sveitarfélögunum nítján en svarhlutfall var 66 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×