Íslenska 20 ára landsliðið varð í öðru sæti á Norðurlandamótinu sem fór fram í Finnlandi og lauk í dag. Íslenska liðið tryggði sér silfrið með 29 stiga stórsigri á Finnum.
Íslenska liðið vann Finna 100-71 eftir að hafa tekið öll völd í öðrum leikhluta sem íslensku strákarnir unnu 30-15. Íslenska liðið var með mikla yfirburði eftir fyrsta leikhlutann en staðan eftir hann var 24-24.
Fyrirliðinn Maciej Baginski, var stigahæstur með 21 stig en hann hitti meðal annars úr fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum.
Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson skoraði 19 stig fyrir íslenska liðið í leiknum og varð um leið stigahæsti leikmaður mótsins en hann hafði betur í hörku keppni við landa sinn Dag Kár Jónsson. Dagur skoraði 14 stig í dag en þeir voru jafnir fyrir leikinn.
Það er ekki á hverjum degi sem Ísland vinnur Finna með meira en tuttugu stiga mun í körfubolta og hvað þá á þeirra eigin heimavelli.
Íslenska liðið tapaði í spennuleik á móti Svíum í fyrsta leik en fylgdi því síðan eftir með að vinna 19 stiga sigur á Dönum í gær og svo 29 stiga sigur á Finnum í dag.
Svíar tryggðu sér Norðurlandameistaratitilinn með sex stiga sigri á Dönum í dag en þeim leik lauk fyrir leik íslenska liðsins og því var ljóst að Norðurlandameistaratitilinn var ekki á leiðinni til Íslands.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, er þjálfari íslenska liðsins og aðstoðarmaður hans er Erik Olson, þjálfari FSU sem komst upp í Dominos-deildina á þessu tímabili.
Silfurlið Íslands á NM 2015:
Dagur Kár Jónsson, Stjörnunni
Brynjar Friðriksson, Stjörnunni
Jón Axel Guðmundsson, Grindavík
Oddur Rúnar Kristjánsson, Grindavík
Pétur Rúnar Birgisson, Tindastól
Maciej Baginski, Njarðvík
Hjálmar Stefánsson, Haukum
Eysteinn Ævarsson, Keflavík
Kristján Leifur Sverrisson, Haukum
Maciej Klimazewski, FSu
Tómas Hilmarsson, Stjörnunni
Viðar Ágústsson, Tindastól
Íslensku strákarnir tryggðu sér silfrið með öðrum stórsigrinum í röð
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið





„Það var engin taktík“
Fótbolti



Sjáðu mörkin úr Bestu: Hetjudáðir fyrirliðans og alvöru innkoma
Íslenski boltinn

