Innlent

"Þessi ótrúlega björgunarsveit bjargaði í raun lífi vinar míns“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Við viljum fá að þakka fyrir okkur. Þessi ótrúlega björgunarsveit bjargaði í raun lífi vinar míns,“ segir Max Smith sem er hluti af breskum hópi sem kallar sig Four People Six Legs, eða fjórar manneskjur og sex fætur. Hópurinn ætlaði sér að fara yfir Vatnajökul á skíðum, dregnir áfram af flugdrekum.

Einn meðlimur hópsins er Sean Rose, sem er Ólympíumeistari fatlaðra á skíðum. Hann veiktist þegar hópurinn var kominn upp á jökulinn. „Hann fékk blóðsýkingu og mikinn hita. Við reyndum að ná hitanum niður en eftir nokkra bið ákváðum við að hafa samband við neyðarlínuna,“ útskýrir Max.

Hann segir þetta í annað skiptið á fjórtán árum sem Sean Rose fær blóðsýkingu. „Þetta er alls ekki algengt, en tengist kannski því að við vorum undir miklu líkamlegu álagi í langan tíma.“

Björgunarsveitirnar eru ótrúlegar

Max segir björgunarsveitirnar hafa unnið alveg ótrúlegt þrekvirki. „Við hringdum í neyðarlínuna klukkan eitt á föstudagseftirmiðdag og þeir komu klukkan tíu að kvöldi. Færðin var hræðileg og þeir þurftu að leggja ótrúlega mikið á sig til að koma okkur til bjargar.“

Eftir að leiðangursmenn ráðfærðu sig við lækni símleiðis var ákveðið að koma hópnum til byggða og var farið á jökulinn frá Héraði, Seyðisfirði, Breiðdalsvík og Höfn, á fimm jeppum og tveimur vélsleðum.

Menn frá björgunarsveitinni Einingu á Breiðdalsvík náðu í Sean og komu honum til byggða. Hann fékk aðhlynningu á Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Vel búnir

Max og félagar voru ótrúlega vel búnir í ferð sinni. Þeir voru aldrei í hættu vegna slæmrar færðar – þeir voru með nægan mat og voru með góð tjöld. Þeir voru í góðu sambandi við björgunarsveitirnar og gátu gefið þeim upp nákvæm GPS-hnit. „Við vorum búnir að skipuleggja þessa ferð í þrjú ár. Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að safna fyrir góðgerðarsamtök og okkur tókst að safna 3,7 milljónum króna.“

Ætla sér að koma aftur

„Við viljum halda því til haga að aðstæðurnar sigruðu okkur ekki. Við vorum óheppnir að einn okkar lenti í veikindum. Við ætlum okkur að fara þvert yfir Vatnajökul og láta flugrekana draga okkur áfram,“ útskýrir Max. Fjórmenningarnir ætla sér að vera þeir fyrstu til þess að ferðast með þessum hætti yfir jökulinn.

„Við munum koma aftur þannig að lítið beri á og klára ætlunarverk okkar,“ segir hann ennfremur.

Uppgvötuðu ótrúlega góðmennsku

„En þó svo að við höfum ekki lokið því sem við ætluðum okkur að gera var þetta alls engin fýluferð. Við fengum að kynnast ótrúlegri góðmennsku. Björgunarsveitin sýndi mikla fagmennsku og fólkið á Egilsstöðum var ákaflega gestrisið,“ segir Max.

Þeir félagar þurftu óvænt að gista á Egilsstöðum á meðan Sean var í læknahöndum. Viðtökurnar segir Max hafa verið frábærar.

Félagarnir eru farnir að halda heim til Englands, hver á fætur öðrum. Þeir munu koma hingað aftur innan skamms. „Ég reyni að koma árlega til Íslands og hef oft farið á Langjökul með hópa af fólki. Við ferðumst á vélsleðum þarna um. Mér þykir landið stórbrotið og fólkið er alveg einstakt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×