Innlent

"Þetta er ekki Obama eða NSA“

Bjarki Ármannsson skrifar
Stefán hefur litlar áhyggjur af málinu.
Stefán hefur litlar áhyggjur af málinu. Vísir/Stefán/GVA
Fridur.is, lén vefsíðu Samtaka hernaðarandstæðinga á Íslandi, virðist vera í ónáð hjá samskiptarisanum Facebook. Reyni notendur að senda skilaboð sín á milli sem innihalda lénið, flokkast það sem nokkurs konar ruslpóstur af hálfu Facebook og eru viðbrögðin svipuð og ef minnst væri á klámsíður í skilaboðunum.

Mörgum dytti kannski í hug að verið sé að reyna að ritskoða hernaðarandstæðinga sem hafa jú í gegnum tíðina gagnrýnt bæði íslensk og bandarísk stjórnvöld. Stefán Pálsson, formaður samtakanna, segir þetta þó líklegast eiga sér eðlilega skýringu.

„Við vorum með hýsingu á léninu úti í Bretlandi og þar notaði einhver netfangið okkar til að senda út ruslpóst, spam,” segir Stefán. „Fyrir vikið lendum við stundum í vandræðum með lénið. Tölvufróðir menn segja mér að þetta sé líklega ástæðan.“

Á Facebook lýsir vandinn sér þannig að ef til stendur að senda skilaboð til vina með til dæmis hlekk á grein af fridur.is, þarftu fyrst að leysa stafaþraut. Takist þér það eru skilaboðin sent án þess að móttakandi fái tilkynningu þess efnis. Ef viðkomandi er ekki á Facebook einmitt þegar skilaboðin eru send fara þau hljóðlaust í ruslmöppu.

Vænisjúkir myndu líklega margir tengja þessi fjandsamlegu viðbrögð samskiptasíðunnar við einhvers konar skoðanakúgun stjórnvalda en Stefán segir svo ekki vera.

„Þetta er ekki Obama eða NSA eða eitthvað svoleiðis,“ segir Stefán léttur í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×