Innlent

Á Skotland að vera sjálfstætt land?

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Skotar standa frammi fyrir því að þurfa að taka afdrifaríka ákvörðun um framtíðina í dag. Kostirnir eru aðeins tveir: Að stofna sjálfstætt ríki með þeirri óvissu sem því fylgir eða láta bresku stjórnina sjá um hlutina áfram.

Skotar hafa verið í ríkjasambandi við England, og þar með Wales, í rúmlega þrjár aldir eða frá því Bretland varð formlega til með sameiningu landanna árið 1707. 

Í dag ganga Skotar að kjörborðinu þar sem þeir verða spurðir einfaldrar spurningar: Á Skotland að vera sjálfstætt land?Birna EinarsdóttirVísir/Ernir
NEI - Skiljanlega miklar tilfinningar sem spila inn í

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, nam við Edinborgarháskóla 1993 og kynntist þar eiginmanni sínum, dr. James Hine, sem Birna segir vera Skota í húð og hár.

Sjálf bjó hún í sex ár í Skotlandi, á enn annað heimili þar og fylgist áhugasöm með umræðunni.

„Ég var í Edinborg um helgina og upplifði þá miklu umræðu og áhuga sem Skotar hafa á málinu. Fólk upplifir að tækifæri til að kjósa um örlög landsins kemur ekki oft á lífsleiðinni. Vinahópur minn er klofinn í afstöðu sinni. Ég hef heyrt að heilu matarboðin leysist upp vegna heitrar umræðu," segir Birna.

„Ég hef verið hugsi um hvernig Skotum takist að ná aftur saman eftir kosningar. Bæði Já- og Nei-herferðirnar hafa lagt áherslu á að Skotar verði að leggja þennan ágreining til hliðar og sættast um niðurstöðuna, hver sem hún verður. Ég segi við manninn minn að hvernig sem fer muni Skotar finna út úr þessu. Þeir eru rétt eins og Íslendingar vinnusamt og skemmtilegt fólk. Hann vill meina að Íslendingar séu duglegri – líklega til að gleðja mig. Ég er búin að segja honum að hann geti ekki verið á móti sjálfstæði Skota því þá verði hann kallaður „andskoti“ hér á landi!“

Gjaldmiðillinn

Hvað gerist ef Skotland segir sig úr myntbandlagi við Stóra-Bretland? Westminster-leiðtogar hafa sagt að pundið standi sjálfstæðu Skotlandi ekki til boða.„Það á eftir að koma í ljós hvað Westminster gerir þegar á reynir. Þetta er án efa það sem flestir hafa áhyggjur af. Jafnframt hversu langan tíma tæki að fá aðild að ESB og evrunni. Það er mikill stuðningur fyrir því þó svo að myntbandalag um pundið sé fyrsti kostur.“

Auðlindir

Af hverju ættu fimm milljónir Skota ekki að geta rekið sjálfstætt ríki?„Yfir helmingur þjóðartekna Skota kemur úr opinbera geiranum. Skotar hafa notið lægri háskólagjalda og betri heilbrigðisþjónustu en restin af Bretlandi. Auðvitað eru Nei-kjósendur hræddir um að fimm milljónir Skota gætu ekki staðið undir því. Bent er á að tekjur af olíu eru minni en framlag til opinberrar þjónustu en ég hef ekki skoðað það nánar. Þá er rætt um að olíuauðlindirnar séu ekki endalausar.“

Aukið sjálfstæði innan Stóra Bretlands

Westminster-leiðtogar hafa lofað auknu sjálfstæði ef Skotar segja nei – fá þeir þá ekki alla kosti sjálfstæðis án þess að taka áhættuna sem því fylgir að slíta sig frá Stóra-Bretlandi?

„Skotar hafa notið forréttinda í gegnum skoska þingið sem t.d. Wales horfir öfundaraugum á, sbr. háskólagjöldin og heilbrigðisþjónustuna.“

Já-sinnar lýsa yfir áhyggjum vegna þess að Westminster-leiðtogar segja ekkert um hvernig þeir ætli að framfylgja loforðinu. Heldurðu að þeir komist upp með að standa ekki við stóru orðin?„Ég held að þeim verði ekkert gefið eftir í því að standa við sín loforð.“

Tvær fylkingar

Svo virðist sem almenningur og ungt fólk styðji sjálfstætt Skotland, en Westminster-ríkisstjórnin, pólitísk elíta og fjársterkir aðilar ekki. Gæti það verið vísbending um að efri stéttir séu úr tengslum við almenning?

„Líklega eru fjársterkari aðilar hræddir við að þurfa að borga hærri skatta til að viðhalda því heilbrigðis- og menntakerfi sem Skotar búa við í dag.“

Finnst þér rökin með sjálfstæði aðallega vera tilfinningarök?

„Það eru skiljanlega miklar tilfinningar í þessu. Ég er ekki viss um að allir séu búnir að reikna dæmið til enda. Ýmsir vinir mínir sem ætla að segja já segja þó: Ég veit að við verðum fjárhagslega verr sett en ég vil frekar sjálfstæði.“

Menning

Hvert myndi sjálfstætt Skotland halla sér? Að Englandi eða Norðurlöndunum?

„Að Evrópu allri, held ég. Talað er um samlegð með Norðurlöndum – auðvitað bera sjálfstæðissinnar sig oft saman við Norðurlandaþjóðir. Sjálfri finnst mér menning Skota og viðhorf ólík þeirra. Skotar njóta þess besta úr báðum heimum. Það eru fáar þjóðir með jafn sterka þjóðarvitund og stolt eins og Skotar. Skemmtilegar hefðir, skotapilsin, Robert Burns, sekkjapípur og viskí. Um leið er Skotland hluti af stærri efnahagslegri heild.“

JÁ - Skotar hugsa öðruvísi en Englendingar

Daði Kolbeinsson, áður Duncan Campbell, fæddist og ólst upp í Skotlandi.

Árið 1973 réðst hann til Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem uppfærsluóbóleikari og hefur verið leiðandi óbóleikari síðan árið 2000. Hann er kvæntur Sesselju Halldórsdóttur víóluleikara.

„Ég kom til Íslands daginn eftir gosið í Eyjum. Ég fylgist alltaf mikið með því sem er um að vera í Skotlandi og ég er Já-maður! Kveikjan að þessu núna er hvað Skotar hafa verið ósammála ákvarðanatökum í Westminster síðastliðin ár. Um leið og Thatcher komst til valda og England byrjaði að hallast til hægri varð til óánægja. Skotar hugsa öðruvísi en Englendingar. Það er ekki þessi peningahyggja. Svo kemur rómantíkin líka inn í þetta hjá okkur sem viljum sjálfstætt Skotland," segir Daði.

„Það er mikil slagsíða á skoðunum Skota í Stóra-Bretlandi almennt. Þegar maður horfir á pólitík í Skotlandi er einn þingmaður kosinn fyrir Íhaldsflokkinn frá Skotlandi, af 59, og íhaldsmenn sem stjórna landinu. Skotar eru almennt miklu lengra inni á miðju eða til vinstri í sínum stjórnmálaskoðunum en Englendingar."

Gjaldmiðillinn

Hvað gerist ef Skotland segir sig úr myntbandlagi við Stóra-Bretland? Westminster-leiðtogar hafa sagt að pundið standi sjálfstæðu Skotlandi ekki til boða.„Ég held að þeir í Westminster geti ekki ráðið því. Það eru lönd sem hafa tekið upp bandaríska dollarann án þess að spyrja kóng eða prest, til dæmis lönd í Suður-Ameríku. Það er mjög erfitt að koma í veg fyrir það að Skotland noti pundið. Þetta er skoska pundið líka, ekki bara þeirra. Þeir geta auðvitað gert okkur erfitt fyrir með viðskiptahömlum, en ég er ekki viss um að þeir geri það – þeir hóta því, en ég er ekki viss þegar á hólminn er komið.“

Aukið sjálfstæði

Westminster-leiðtogar hafa lofað auknu sjálfstæði ef Skotar segja nei – eru það ekki allir kostir þess að öðlast sjálfstæði án þess að taka áhætturnar sem því fylgja að slíta sig frá Stóra-Bretlandi? „Það má segja það – ef loforðin ganga eftir. Það eru sennilega margir sem vilja ekki taka áhættu og segja já við sjálfstæði. En það hefur verið kosið áður og þá voru mörg loforð en á endanum rættist ekki úr neinu. Það er hægt að lofa öllu fögru en það er þingið sem tekur ákvarðanir og þingmenn geta haft aðrar skoðanir en leiðtogarnir.“

Tvær fylkingar

Svo virðist sem almenningur og ungt fólk styðji sjálfstætt Skotland, en Westminster-ríkisstjórnin, pólitísk elíta og fjársterkir aðilar ekki. Gæti það verið vísbending um að efri stéttir séu úr tengslum við almenning? 

„Það hefur komið út úr skoðanakönnunum að háskólamenntaðir hafa meiri tilhneigingu til þess að vera fylgjandi sjálfstæði, ásamt ungu fólki og fólki sem á lítið eða hefur engra hagsmuna að gæta. Fólk sem tapar engu, því það á ekkert. En peningaöflin hafa sterkar skoðanir á þessu og það hefur komið greinilega fram. Flest stóru fyrirtækin segja sjálfstæði mikil mistök, en þó sagði British Airways að sjálfstætt Skotland væri hið besta mál. Það gæti verið af því að Alex Salmond, leiðtogi Já-hópsins, hefur lofað að lækka lendingargjöld,“ segir Daði og hlær.

„Westminster-ríkisstjórnin er úr takti og tengslum við almenning í Skotlandi. Það er klárt mál.

 

Finnst þér rökin með sjálfstæði aðallega vera tilfinningarök?

„Þetta er dálítil rómantík. Þetta er ekki fólk sem á peninga, það hugsar meira um hreinræktaða pólitík eða rómantíserar sjálfstætt Skotland.“

Menning

Hvert myndi sjálfstætt Skotland halla sér? Að Englandi eða Norðurlöndunum?„Ég held að sjálfstætt Skotland myndi reyna að efla tengsl við Norðurlönd. Ég gæti líka trúað að þetta yrði vítamínsprauta í öllum þáttum skosks þjóðlífs. Menn yrðu varari við allt skoskt, en eins og þetta er núna er það bara fyrir túrista. Að öðru leyti sérðu ekki mun á Englandi og Skotlandi. Það held ég að myndi breytast, því við eigum mikla menningu og mikinn mannauð.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.