Innlent

Fyrsti diplómat Grænlendinga erlendis verður í Washington

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands.
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. Mynd/AFP.
Grænlensk ræðismannsskrifstofa í Washington brýtur ekki gegn sjálfsstjórnarsáttmála Grænlendinga við Dani. Utanríkisráðherra Danmerkur, Martin Lidegård, fullvissaði grænlenska þingið um þetta í síðustu viku en innan grænlenskrar þingnefndar hafa verið efasemdir um hvað Grænlendingar gætu gengið langt í að koma sér upp eigin diplómötum í erlendum ríkjum.

Samkvæmt sáttmálum Danmerkur um sjálfsstjórn Grænlands og Færeyja eru eyþjóðirnar hluti af danska konungsríkinu og fer ríkisstjórn Danmerkur með utanríkismál. Stjórnin í Kaupmannahöfn ber ábyrgð á stefnumörkun í samskiptum þeirra við erlend ríki og fer einnig með varnar- og öryggismál.  Sjálfsstjórnarsáttmálinn gefur Grænlandi þó rétt til að taka tilteknar ákvarðanir í utanríkismálum, eins og koma á fót þjónustuskrifstofum í erlendum ríkjum, segir danski utanríkisráðherrann í svari til grænlensku þingnefndarinnar, að því er fram kemur í grænlenska fréttamiðlinum Arctic Journal.

Þingmenn Grænlands höfðu lýst áhyggjum vegna frétta danskra fjölmiðla um að ræðismaður Grænlands í Washington yrði starfsmaður danska utanríkisráðuneytisins. Danski utanríkisráðherrann undirstrikar að svo verði ekki raunin.

Innutek Holm, sem verður ræðismaður Grænlands í Washington, mun einbeita sér að viðskipta- og efnahagstengslum. Hann verður fyrsti sendimaður Grænlendinga með stöðu diplómats í erlendu ríki. Grænlendingar áforma einnig að koma á fót ræðismannsskrifstofum í Reykjavík, Moskvu og Peking.

Sendimenn Grænlands hjá erlendum ríkjum mega ekki heita sendiherrar né skrifstofurnar sendiráð, þeir verða ræðismenn á ræðismannskrifstofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×