Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ hefur áhyggjur af því að veiðar ríkjanna sem hafa náð samkomulagi í makríldeilunni muni verða langt umfram ráðgjöf vísindamanna.
„Ef þú leggur saman þær tölur sem hafa verið birtar, sem hinir samningsaðilarnir hafa kvittað undir þá ertu næstum því kominn upp í 1,1 milljón tonna. Þá áttu eftir að gera ráð fyrir veiðum Íslendinga, Grænlendinga og Rússa,“ segir Kolbeinn.
„Ef þú tekur þetta allt saman þá ertu kominn með heildarveiði upp á 1.450 þúsund tonn á meðan ráðgjöf vísindamanna um heildaraflann er 890 þúsund tonn.“
„Þetta rímar illa við það sem maður las í fréttatilkynningu Evrópusambandsins um að það ætti að fara að ráðgjöf vísindamanna við veiðarnar. Á hvaða vegferð eru þeir með þetta?“ Spyr Kolbeinn.
Miklar kúvendingar síðan á miðvikudag
Hann segir mjög undarlegt hvernig málið hafi þróast, en samkomulag náðist á milli Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins um málið fyrr í kvöld.
„Mín upplifun var hreinlega sú að aðilarnir hafi gefist upp að ná samkomulagi við Noreg. Þess vegna hafi viðræðunum verið slitið á miðvikudaginn seinasta. Síðan fer af stað einhver atburðarás sem að okkur er haldið algjörlega utan við,“ segir Kolbeinn. „Það er mjög athyglisvert að velta því upp hvað hafi gerst í millitíðinni,“ bætir hann við.
Makrílveiðar langt umfram ráðgjöf vísindamanna

Tengdar fréttir

Samkomulag við Ísland var fullreynt í makríldeilunni
Elisabeth Aspaker, norski sjávarútvegsráðherrann, segist harma að Ísland hafi ekki verið aðili að samkomulagi sem hefur náðst í makríldeilunni.