Lífið

Bónorð á tónleikum Michael Bublé

Elín Albertsdóttir skrifar
Jógvan og Hrafnhildur með Jóhannes Ara og Ásu Maríu. Spennandi tímar fram undan hjá fjölskyldunni.
Jógvan og Hrafnhildur með Jóhannes Ara og Ásu Maríu. Spennandi tímar fram undan hjá fjölskyldunni. mynd/valli
Jógvan Hansen söngvari og unnusta hans, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, ganga í það heilaga 12. júlí næstkomandi í Hallgrímskirkju. Brúðkaupsundirbúningur er í fullum gangi og gert er ráð fyrir tvö hundruð gestum í glæsilega veislu.

Jógvan, sem er einn vinsælasti brúðkaupssöngvari landsins, segist búast við að hann taki lagið fyrir Hrafnhildi á þessum stóra degi. Þau eru búin að vera lengi saman og eiga tvö börn, Sonur þeirra, Jóhannes Ari Hansen, er rúmlega tveggja ára og dóttirin, Ása María Hansen, er fimm mánaða. „Giftingin verður í Hallgrímskirkju. Okkur veitir ekki af því að hafa stóra kirkju því gestalistinn er langur,“ segir brúðguminn.

„Ég á stóran frændgarð í Færeyjum og margir koma til að vera viðstaddir brúðkaupið. Hér á landi hef ég starfað í tíu ár og eignast marga góða vini. Hrafnhildur á einnig stóra fjölskyldu. Mín ósk væri að bjóða öllum en það hefði orðið ansi dýrt. Listinn hljóðaði fyrst upp á 270 manns en við urðum að skera hann niður í tvö hundruð gesti,“ segir Jógvan.

Þjóðlegir forréttir

„Veislan verður á Hilton-hóteli um kvöldið og fyrst ætlum við að bjóða þjóðlega for-forrétti frá löndum okkar. Gestir fá meðal annars að smakka skerpukjöt frá Færeyjum og hákarl og súra punga frá Íslandi. Í brúðkaupum í Færeyjum er alltaf boðið upp á svokallaðan hurðasnaps sem er afhentur þegar gestir ganga í salinn og svo verður einnig hjá okkur. Eftir það verður glæsileg matarveisla, dans og gleði og fullt af tónlistarmönnum og öðru skemmtilegu fólki,“ segir hann enn fremur.

Hrafnhildur er búin að finna rétta brúðardressið en Jógvan er enn að velta vöngum. „Ég er varla byrjaður að pæla í þessum hlutum. Veit ekki hvort ég verð í smóking, kjólfötum, jakkafötum eða bara færeyska þjóðbúningnum,“ segir hann og hlær en bætir við að Hrafnhildi lítist ekki á það síðastnefnda.

Bónorð á tónleikum

Þegar hann er spurður hvort hann hafi farið á hnén og beðið hennar að herrasið, svarar hann: „Ég fór reyndar ekki á skeljarnar. Það hafði verið lengi í bígerð hjá mér að biðja hennar en ég beið alltaf eftir réttu stundinni. Eiginlega var ég orðinn hálf stressaður á þessu. Þegar Hrafnhildur gaf mér miða á tónleika með Michael Bublé í London síðastliðið sumar vissi ég að hin fullkomna stund væri að renna upp. Friðrik Ómar söngvari og Ingibjörg Kristjánsdóttir fóru með okkur á tónleikana og urðu vitni að bónorðinu sem fram fór þegar Bublé söng uppáhaldslagið okkar, Everything. Ég var löngu búinn að kaupa hringana og það var erfitt að fela þá allan tímann. Heitt var í London og ég þurfti að vera léttklæddur sem gerði þetta enn verra, eiginlega enginn felustaður nema nærbuxurnar,“ segir hann hlæjandi.

„Um mitt lagið stóð ég upp og bað hennar,“ segir Jógvan og bætir við að þá hafi fallið nokkur tár hjá þeim öllum fjórum. „Þetta var hátíðleg stund,“ segir hann en síðan var skálað í kampavíni eftir tónleikana. „Hrafnhildur fékk óáfengt, enda var hún ófrísk.“

Ást og Með þér

Jógvan segir að nokkur lög séu vinsælli en önnur í brúðkaupum. „Það er sérstakt að syngja í brúðkaupum því þetta er svo persónuleg stund. Allir eru glæsilega klæddir og það myndast alltaf sérstök stemning. Ég er oftast beðinn að syngja lagið Ást eftir Magnús Þór Sigmundsson og Með þér eftir Bubba Morthens. Í einu brúðkaupi var ég beðinn um að syngja Elvis Presley-lög í kirkjunni en í það skiptið var brúðguminn mikill aðdáandi hans. Það kemur fyrir að fólk biðji um lag þar sem textinn á ekki við svona athöfn og þá bendi ég á það. Ég aðstoða brúðhjónin með lög ef þau eru ekki ákveðin og læt þau hafa viðeigandi lagalista." 

Jógvan segist ekki vera búinn að velja lögin í sitt eigið brúðkaup. Það er þó eitt lag sem verður örugglega flutt en ég get ekki sagt hvaða lag það er. Veislan verður skemmtileg, Færeyingar og Íslendingar kunna að skemmta sér saman. Ég hlakka mikið til þessa dags og tíminn líður hratt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.