Lífið

Komst ekki inn í listnám fyrr en í þriðju tilraun

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Goddur hefur tekið þátt í uppbyggingu náms í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands frá stofnun hans.
Goddur hefur tekið þátt í uppbyggingu náms í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands frá stofnun hans. Fréttablaðið/Anton
„Málið er að ég er búin að eyða miklum tíma í það í gegnum minn tíma sem kennari að tala um aðra og flytja fyrirlestra um aðra, en ég hef aldrei fjallað um sjálfan mig,“ segir Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, prófessor í grafískri hönnun sem heldur fyrirlestur um sinn eigin grafíska myndheim í fyrirlestrarröð Hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, SNEIÐMYND í Þverholti 11 í hádeginu í dag.

„Þannig að þetta er í fyrsta sinn sem ég sýni hvað ég hef verið að gera síðastliðin 40 ár,“ segir Goddur, sem hóf ferilinn á auglýsingastofu á Akureyri.

„Ég fékk hlutastarf við að aðstoða á stofunni,“ rifjar hann upp, og bætir við að í menntaskóla hafi hann alltaf haft gaman af því að búa til plaggöt og skólablöð.

„Mig langaði að læra eitthvað þessu tengt, en komst reyndar ekki inn í Myndlista- og handíðaskólann fyrr en í þriðju tilraun,“ segir hann og hlær, en hann nam í skólanum frá 1976-1979.

„Mér leist ekkert á auglýsingadeildina þannig að ég skipti alveg um og fór í myndlist því deildin var svo miklu skemmtilegri á þeim tíma.“

Hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Emily Carr College of Art and Design í Vancouver, Bresku Kólumbíu árið 1989.

„Ég tilheyri þeirri kynslóð sem fyrst lærir grafíska hönnun í Macintosh umhverfi þannig að það voru bara rauðir dreglar þegar ég kem heim frá Kanada og menn vildu ólmir fá mig til að kenna. Þá varð ég tæknikennari í einhver ár, en nemendurnir voru fljótir að taka fram úr mér. Og ég fattaði að ég ætti ekki séns í tölvusnillingana. Það var ekki fyrr en ég fór í fræðikennslu sem að aldurinn fór að vinna með mér og skeggið síkkaði og hárið, og ég þurfti lítið annað að gera en að láta sjá mig og þá urðu allir hræddir,“ segir Goddur og hlær.

„En í gegnum árin hef ég aðallega verið að vinna að hönnun fyrir menningarstofnanir og listamenn, viðburði og oft hef ég sjálfur tekið þátt í allskonar gjörningum og gert þá plaggöt fyrir þá,“ segir Goddur.

„Þetta verður eins og kvikmynd af öllu heila klabbinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.