Innlent

Þyrla Gæslunnar flutti slasaðan mann úr Esjunni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
TF-SYN
TF-SYN mynd/landhelgisgæslan
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, flutti mann á sextugsaldri sem slasast hafði á ökkla í Esjunni til Reykjavíkur um klukkan hálf tvö í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Maðurinn var ófær um gang og voru björgunarsveitir Landsbjargar boðaðar út og hittist þá svo vel á að þyrlan var á heimleið úr æfingaflugi. Var henni beint á staðinn en sjúkrabíll beið mannsins á Reykjavíkurflugvelli og flutti hann á sjúkrahús til aðhlynningar.

Skipstjóri á sjö tonna bát hafði síðan samband við Landhelgisgæsluna um svipað leyti en hann var staddur rétt utan við innsiglinguna til Sandgerðis. Stýri bátsins hafði bilað og var búið að varpa út akkeri.

Óskaði skipstjóri eftir aðstoð við að komast inn til hafnar. Haft var samband við bát sem var í um tveggja sjómílna fjarlægð og dró hann hinn bilaða bát til hafnar í Sandgerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×