Lífið

„Hvað er meira æsandi en að segja: Ég vil ríða þér núna“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Sigga Dögg.
Sigga Dögg. vísir/stefán
Ég hef alltaf verið mjög góð í að tala um kynlíf og haft einlægan áhuga á öðru fólki og hvað því finnst um sambönd, ástina og ástarsorg. Þannig að þetta er í raun áhugamál, ástríða og vinna fléttað saman í eitt,“ segir kynfræðingurinn Sigríður Dögg Arnardóttir, betur þekkt sem Sigga Dögg. Hún er með meistarapróf í kynfræði frá Curtin-háskóla í Vestur-Ástralíu og segir að það hafi í raun legið beinast við frá unga aldri að hún ætlaði að verða kynfræðingur.

„Ég byrjaði að vera mjög ástsjúk þegar ég var rosalega ung. Ég var mjög upptekin af ástinni. Ég lét Barbie og Ken lenda í mega-ástarævintýrum þar sem var mikil dramatík. Barbie fór til dæmis frá honum fyrir annan mann og Ken sat eftir grátandi. Ég fann mig í öllu sem tengdist ást þó ég væri ekkert fremst í flokki í þessum málum þegar kom að því að prufa sjálf. En ástin sogar mig til sín. Mér finnst hún ótrúlega áhugaverð,“ segir Sigga Dögg.

Með algjöra stæla og kjaft

Sigga Dögg er gift Hermanni Sigurðssyni og þau eiga tvö börn saman, Írisi Lóu sem er þriggja ára og Henry Nóa sem er eins árs. Það má með sanni segja að Sigga Dögg hafi fundið draumaprinsinn.

„Ég hef gaman af tilviljunum og örlagahugsun. Kvöldið sem við hittumst reyndi ég allt sem í mínu valdi stóð til að hitta hann ekki. Svo fór röð atburða af stað og mér var nánast ýtt í fangið á honum. Síminn minn dó og ég var alltof full. Ég var með algjöra stæla og kjaft. Sagði við hann að ég nennti ekki að tala við hann því hann vildi örugglega bara fara heim að ríða og ég stæði ekki í svoleiðis. En svo sagði hann: Ég er edrú. Ég er búinn að hafa ógeðslega mikið fyrir því að finna þig. Er þetta það eina sem þú hefur að segja? Þá fékk ég mér vatnsglas og slakaði á,“ segir Sigga Dögg brosandi.

„Ég er rosalega hreinskilin og það kemur illa við mjög marga. Ég hef stuðað mjög marga og mörgum finnst ég óþægileg. En ég fann maka sem fannst ég ekkert óþægileg heldur ógeðslega skemmtileg,“ bætir Sigga Dögg við. Hún segir líf þeirra skötuhjúa hafa breyst talsvert þegar börnin komu til sögunnar.

„Það er skrýtið að vera foreldri í rútínu því við erum bæði brjálaðar flökkukindur. Okkar klámsíður eru Icelandair og Wow. En svo allt í einu eru komin tvö börn sem þurfa að lúra og borða mat klukkan akkúrat þetta því annars verða þau sturluð eins og Gremlins. Þá þarf að spyrja sig hvernig við ætlum að ganga upp sem par? Við reynum alltaf að finna okkur stað til að búa til stund fyrir okkur tvö innan þess ramma sem við getum. Við fáum stundum pössun og gerum eitthvað saman. Það þarf ekki að vera merkilegt, kannski bara göngutúr þar sem við tölum ekkert um praktísk atriði og það sem tengist fjölskyldunni.“

Fyrsta eintakið af bókinni
Áreynslulaus kynfæramyndataka

Bók Siggu Daggar, Kjaftað um kynlíf, kemur út í þessum mánuði og hefur vakið gríðarlega athygli. Við vinnslu bókarinnar auglýsti hún eftir Íslendingum sem væru til í að láta mynda kynfæri sín til að nota sem skýringarmyndir í bókinni.

„Ég hef sýnt kynfæramyndir allt frá því ég byrjaði með kynfræðslu árið 2010. Mér finnst mikilvægt að sýna myndir svo við sjáum fjölbreytileikann og slökum á kröfum um eigin líkama. Ég fann þessar myndir á netinu og var ekki tilbúin til að taka þessar myndir sjálf á þessum tíma. Ég var ný, það vissi enginn hver ég var og ég vildi ekki vera skrýtna týpan. En þegar ég var að skrifa kaflann í bókinni um mikilvægi þess að þekkja eigin líkama áður en þú býður öðrum uppí rúm til þín hugsaði ég með mér: Hvernig get ég talað um þessar myndir ef ég er ekki búin að taka þær sjálf?“ segir Sigga Dögg og ákvað því að auglýsa eftir sjálfboðaliðum í verkefnið.

„Það gekk fáránlega vel. Það voru ótrúlega margir sem báðu um að fá að koma og það skapaðist mjög þægilegt andrúmsloft. Við spjölluðum og spjölluðum, fólk fékk sér kannski Hraun og djús og svo fór það bara. Þetta var mjög áreynslulaust og hefði ekki getað verið eðlilegra. Það er nefnilega eiginlega erfiðara að standa fyrir framan myndavél og reyna að vera sætur. Í þessari myndatöku þurfti ekkert að vera sætur. Píkan er eins og hún er. Hún brosir ekki, hún ullar ekki, hún er bara eins og hún er. Sama er að segja um typpi.“ 

Ég vil ríða þér núna

Bókin er hugsuð fyrir foreldra til að fræða börn sín um kynlíf allt frá því þau fæðast og þangað til þau verða lögráða. Sigga Dögg vill opna umræðuna um kynlíf til muna og vonar að bókin geri það.

„Við ættum í raun að vera komin mun lengra. Það sem ég vona að gerist með bókina er það

að þegar unglingar stíga sín fyrstu skref í kynlífi viti þau mikið um kynlíf og komi fram við hvort annað af mikilli virðingu. Einn liður í því að opna málefni sem er tabú er að létta á því. Ef kynlíf er skoðað í sögulegu samhengi er það mikil skömm. Fyrr á tíðum voru konur brenndar á báli fyrir að vera „lauslátar“. Það er hræðilegt. Það örlar á alls konar svona hugsunarhætti enn þann dag í dag. Allt þetta klám skilar okkur sem betur fer takmarkaðri þekkingu því þeir sem framleiða það eru ekki upplýstir einstaklingar. En í klámi eru sömu mýturnar endurteknar aftur og aftur þangað til við segjum stopp,“ segir hún og bætir við að lykillinn að góðu kynlífi séu samskipti.

„Það vilja allir lifa góðu kynlífi. Við viljum öll að okkur líði vel með okkur sjálf. Það eru engar heilagar reglur í kynlífi annað en samskipti. Það er það eina sem við tókum út úr kynlífi sem er skrýtið. Við skrifum um stellingar og kennum alls konar tækni um hvernig eigi að totta en við tókum það út að segja hvað okkur þykir gott, tala um kynlíf, spyrja um leiðbeiningar, biðja um það. Þetta var tekið út því við áttum að vera svo klár og kunna margar stellingar og vera liðug. Allt átti að vera ósagt og við áttum að gefa hitt og þetta í skyn með augngotum. Hvað er meira æsandi en að segja: Ég vil ríða þér núna. Skýrt og hreint. Let's go.“

Fjölskyldan í flippstuði
„Finniði túrlyktina! Ojjjj!“

Sigga Dögg hefur frá árinu 2010 boðið upp á kynfræðslu í efstu bekkjum grunnskóla í landinu. Hún hefur fengið jákvæð viðbrögð frá kennurum og foreldrum vegna fræðslunnar og ekki síst nemendum sem hafa oft frumkvæði að því að hún heimsæki skólann. Spurningar nemendanna eru jafn mismunandi og þær eru margar en Sigga Dögg segir fátt slá sig út af laginu.

„Ein spurði mig um daginn hvort konur gætu eignast hvolpa því hún hefði séð það á netinu. Ég sá að spurningin olli því að kennarinn tók andköf en fyrir mér var þetta tækifæri til að tala um klám og það sem er á netinu,“ segir hún. Henni finnst merkilegt hvað unglingar eru illa upplýstir um eitt og annað, þar á meðal um blæðingar kvenna. 

„Nýleg rannsókn nemendaverkefnis í Háskóla Íslands sýndi að stúlkur væru óundirbúnar fyrir blæðingar enn þann dag í dag. Þetta kvenlega er svo mikil skömm. Stelpur fela túrtappa og það má helst enginn sjá mann halda á þeim inn á klósett. Strákar eru mjög forvitnir um blæðingar en þeim er stundum sleppt við þá fræðslu því þeir fara ekki á blæðingar. Einn spurði mig til dæmis um daginn hvort ég gæti lýst túrlykt. Ég hugsaði mig um og gat það eiginlega ekki. En ég man eftir þessu sem krakki. Ein stelpa var á blæðingum og kom út af klósettinu og þá hlupu allir strákarnir inn á klósett og öskruðu: Finniði túrlyktina! Ojjjj! Túrlykt! Túrlykt! Ég man svo eftir því þegar ég byrjaði á blæðingum að ég hafði svo miklar áhyggjur af að það væri túrlykt í kringum mig. Þetta er svona enn þann dag í dag og það er svo merkilegt. Þetta er út af því að við erum ekki byrjuð á samræðunum.“

Skötuhjúin með kóalabirni í Ástralíu
Barnið sem kynvera

Annað sem Sigga Dögg er með í bígerð er fyrirlestur þann 16. september fyrir leikskólakennara og leiðbeinendur um barnið sem kynveru frá núll til sex ára. Þar fjallar hún meðal annars um líkamsvirðingu, hvað sé eðlilegt að börn á þessu aldursskeiði viti mikið um kynlíf og réttnefni kynfæranna.

„Okkur finnst nafnið píka stinga því við erum óvön því og það hefur neikvæðar tengingar. En við getum breytt því og við erum að breyta því. Um leið og við segjum það oftar hættir það að stinga. Öll börn í þessum heimi spyrja á einhverjum tímapunkti út í píkuna og typpið. Typpið er ekki brunaslanga. Það er bara typpi. Er þá ekki píka líka bara píka? Það er líka valdeflandi að vita hvað líkami manns heitir. Sumum finnst pjalla gott orð og nota það. Dóttir mín er hrifnari af því orði. Hún þolir ekki orðið píka. Við fórum í gegnum þetta og ég sagði við hana: Þú veist að þú ert með maga? Við köllum hann líka stundum bumbu en hann heitir magi. Þannig að þetta heitir píka en þú mátt kalla hana pjöllu ef þú vilt. Þetta er samt píka. Við erum með alls kyns samnefni um líkama okkar en við förum ekki 23 ára til læknis og segjum: Mér er illt í bumbunni, er það?“

Frelsi til að raka sig

Sigga Dögg segir fólk oft og tíðum hafa ranghugmyndir um hennar persónu þar sem hún talar hreint út og lætur mótbyr ekki á sig fá. 

„Fólk hefur alltaf fundið þörf fyrir að gagnrýna mig mjög markvisst. En ég hef alltaf verið með kjaft og svarað fyrir mig. Fólk heldur oft að ég sé massasnobbuð og ofurpæja. Ég er það minnst. Mig langar að vera pæja en ég held að ég sé meiri pæja í hausnum á mér. Mér finnst samt gaman að pota í fólk. Mér finnst gaman að mæta pínulítið loðin undir höndunum í sund bara svo einhver horfi og verði vandræðalegur. Ég vil hafa frelsi til að raka mig þegar ég vil raka mig. Mér finnst það ekki koma neinum við því þetta er minn líkami. Ég held að við værum á miklu betri stað ef við myndum beita þessari orku í okkur á okkar nánustu sambönd á jákvæðan hátt.“

Á róló með börnin
Kinkí rosalega skemmtilegt

Sigga Dögg er með vikulega pistla í Fréttablaðinu um kynlíf og samskipti kynjanna þar sem hún svarar spurningum lesenda. Hún segir fólk líka mjög duglegt að senda henni spurningar í gegnum Facebook.

„Það eru frekar litlar spurningar eins og: Mér finnst skrýtin lykt af píkunni minni, hvað á ég að gera? Þessum spurningum er ekki flókið að svara en mér finnst þægilegt að fólki líði þannig að það geti sent á mig. Mér finnst þægilegt að þetta fái að vera óformleg samskipti.“

En hvað finnst henni sjálfri áhugaverðast í hinum stóra heimi kynlífsins?

„Mér finnst kinkí rosalega skemmtilegt. Ég kynnti mér það almennilega þegar ég kom heim úr námi og fór að vinna með BDSM-félaginu. Mér finnst áhugavert hvernig líkaminn er notaður til kynferðislegrar ánægju og margt í þeim efnum sem kom mér á óvart. Þetta var heimur sem ég þekkti mjög lítið en besta leiðin til að kynnast honum er að tala við og umgangast þá sem stunda BDSM ef þú ætlar ekki að stunda það sjálfur. Mér finnst skemmtilegt að heyra hvernig fólk prófar sig áfram og þegar það finnur eitthvað sem virkar fyrir það. Ég er oft spurð að því hvað sé það klikkaðasta sem ég hafi prófað eða hvort ég hafi prófað allt í kynlífi. Þá minni ég á að það er stuð og stemmari hverju sinni og að maður sé ekki alltaf ógeðslega spennandi og frumlegur. Ég veit bara rosalega mikið um kynlíf og ég er dugleg að tala um það. Ég er dugleg að láta manninn minn vita hvað ég vil og við eigum opnari samskipti en mörg pör um þessi mál. Og ég veit hvaða sleipiefnategund er góð,“ segir Sigga Dögg og brosir.

„Margir misskilja og halda að maður þurfi að hafa prufað svo mikið áður en maður verður kynfræðingur. Þú þarft þess ekkert frekar en þú vilt. Maður miðlar aldrei eigin reynslusögum. Það væri fáránlegt því það virkar ekkert eitt fyrir alla. Besta kynlífið er þegar þú getur gleymt öllu öðru og ert bara í stund og stað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×