Lífið

Bókaði Hilmi Snæ í línudanstíma

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Helgi Björns og Reiðmenn vindanna ætla að breyta Eldborgarsalnum í hesthús í sumar.
Helgi Björns og Reiðmenn vindanna ætla að breyta Eldborgarsalnum í hesthús í sumar. fréttablaðið/valli
„Vorið er komið, grundirnar gróa og þá fara reiðmenn vindanna á stjá,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson en hann skipuleggur nú af kappi mikla tónleika sem haldnir verða í Eldborgarsalnum í Hörpu þann 16. júní.

Hljómsveit Helga, Reiðmenn vindanna, hefur aldeilis slegið gegn allt frá því að fyrsta platan, Ríðum sem fjandinn, kom út árið 2008. „Ég var mikið í hestaferðum, þá voru hestalögin mjög vinsæl og þá var byrjað að tala um að gera plötu með hestalögum. Þegar ég var í Berlín hlustaði ég mikið á rhythm and blues tónlist og vildi í kjölfarið steypa saman slíkri músík og kántrítónlist,“ útskýrir Helgi.

Hann kom svo til landsins sumarið 2008 og kláraði plötu á einni viku. „Í upphafi var þetta meira gert til gamans. Ég fór með plötuna á Landsmót hestamanna sama sumar og hún sló í gegn þar og út um allt land,“ bætir Helgi við.

Helgi er mikill hestamaður og á meðal annars merina Hörpu. „Harpa fór fyrir skömmu undir hest að nafni Konsert og á það vel við því við erum einmitt með konsert í Hörpu,“ segir Helgi og hlær. Hann útilokar ekki að merin Harpa mæti á konsertinn í Hörpu.

Á tónleikunum koma einnig fram fleiri þjóðþekktir einstaklingar eins og Hilmir Snær Guðnason, Örn Árnason, Jóhann Sigurðarson og liðsmenn hljómsveitarinnar Buffs. „Ég er búinn að bóka þá í línudanstíma þannig að það verður stiginn dans og leikið á létta strengi á tónleikunum,“ segir Helgi og bætir við: „Það er aldrei að vita nema að þeir komi ríðandi inn á sviðið.“ Miðasala á tónleikana hefst í dag á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.