Lífið

Við Emil erum báðir góðhjartaðir gaurar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Sigurður Bogi lék í átta leiksýningum í fyrri viku í þremur leikritinum.
Sigurður Bogi lék í átta leiksýningum í fyrri viku í þremur leikritinum. Mynd/Auðunn
Í hvaða leikritum hefur þú leikið í vetur, Sigurður Bogi? „Ég hef verið í Emil í Kattholti, Tuma tímalausa og Gullna hliðinu.

Svo tók ég þátt í hæfileikakeppni fyrir börn á Norðurlandi og var einn af sex sigurvegurum sem komu fram á barnaskemmtun Börn fyrir börn í Hofi til styrktar barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri.

Ég söng lagið Mamma þarf að djamma og spilaði á gítar. Lagið fékk sko um 10.000 áhorf á YouTube. Þar söng ég líka með Friðriki Ómari og Jógvan Hansen lagið Húsið er að gráta.“

Hvað varstu í mörgum sýningum í síðustu viku?  „Ég var í átta sýningum, tveimur sem Bokki búálfur í Tuma tímalausa í Hofi, fimm sýningum sem Emil í Kattholti í Freyvangsleikhúsinu og einni sem engill í englakór í Gullna hliðinu hjá Leikfélagi Akureyrar.“

Steingerður Snorradóttir og Sigurður Bogi í hlutverkum sínum sem Ída og Emil.Mynd/Ívar Helgason
Er eitthvað líkt með þér og Emil? „Við viljum öllum vel og erum góðhjartaðir gaurar en stundum frekar seinheppnir.“

Ertu góður að tálga? „Já, já, alveg ágætur, skar mig reyndar á næstsíðustu sýningunni á Emil sem var númer 40.

Hvernig er Bokki? „Bokki er sko búálfur, sirka 500 ára gamall sem býr heima hjá Tuma og fylgir honum hvert sem hann fer. Mannfólkið sér hann ekki en svo sér Tumi hann þegar hann fer í álfheima.“

Veistu hversu oft þú hefur farið á svið á einu ári? „Ég held að það sé eitthvað um 65 sinnum síðan í október þegar Emil var frumsýndur.

Svo tók ég reyndar líka þátt í Söngkeppni unga fólksins á Einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina, spilaði á sviði í miðbænum og lenti í öðru sæti með lagið Fjóla með Hvanndalsbræðum, ég spilaði á gítar og söng og Valmar Hvanndalsbróðir spilaði á harmóníku.“

Hvert var fyrsta hlutverkið þitt á sviði? „Emil í Kattholti og svo hef ég leikið smá í skólanum.“

Hefurðu eitthvað getað lært í skólanum í vetur? „Já, já, ég er svo heppinn að það er ekki mikið heimanám í skólanum þannig að það er allt í lagi.“

Hvert er skemmtilegasta fagið? „Jarðfræði er skemmtilegust og svo væri stjörnufræði líka örugglega skemmtileg ef hún væri kennd.“

Förum aðeins yfir helstu áhugamálin. „Ég er læra á fiðlu en spila meira á gítarinn og er nýbúinn að stofna hljómsveit með tveimur krökkum sem ég kynntist í Tuma, ég spila á gítar og syng, Rebekka sem lék annan Tumann er söngkona og Helgi sem lék annan Gemling álfadreng er trommari.

Svo hef ég líka mikinn áhuga á raunvísindum. Ég er svolítið á skíðum og keppti á Andrésar andar leikunum núna um helgina.“

Hvað langar þig að verða þegar þú verður stór? „Leikari og tónlistarmaður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.