Lífið

Föðmuðu biskupinn og sjávarútvegsráðherra

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, Biskup Íslands ásamt tveimur kærleiksríkum Vopnfirðingum.
Agnes M. Sigurðardóttir, Biskup Íslands ásamt tveimur kærleiksríkum Vopnfirðingum. mynd/Árni Svanur Daníelsson
„Við stöndum fyrir svokallaðri Vinaviku í október og erum að kynna hana hér í Reykjavík þessa dagana en markmiðið með Vinavikunni er að minna fólk á mikilvægi vináttunnar og kærleikans,“ segir Stefán Már Gunnlaugsson sóknarprestur á Vopnafirði.

Hann er þessa dagana staddur í Reykjavík með þrjátíu unglinga að kynna svokallaða Vinaviku og af því tilefni fór hópurinn í mikla kærleiksferð um bæinn. „Við hittum biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, og sjávarútvegsráðherrann, Sigurð Inga Jóhannsson, og buðum þeim upp á faðmlög,“ segir Stefán Már. Bæði voru þau himinlifandi með faðmlögin og kærleikann sem unglingarnir sýndu þeim. „Ætlunin var að bjóða Sigmundi Davíð upp á faðmlag en hann var vant við látinn.“

Eftir að hafa hitt embættismennina var förinni heitið í Smáralindina þar sem unglingarnir buðu upp á kynningarbás og faðmlög. „Fólk var svolítið feimið í Smáralindinni en það minnir okkur á hversu nauðsynleg vináttan og kærleikurinn er,“ bætir Stefán Már við.

Hann segist jafnframt finna fyrir dálitlum mun á viðtökum við viðfangsefninu og segir fjarlægðina á milli fólksins á höfuðborgarsvæðinu ögn meiri en á Vopnarfirði. „Samfélagið er auðvitað talsvert minna á Vopnafirði,“ segir Stefán Már léttur í lundu.

Í dag verður námskeið undir nafninu Verðmæti vináttunnar haldið í Lindakirkju en þar verður meðal annars rætt um mikilvægi vináttunnar og kærleikans.

Þá fer fram svokölluð Vinamessa í Lindakirkju klukkan 11.00 á sunnudag og er henni útvarpað á Rás 1. „Við erum fyrst og fremst bara að breiða út þennan góða boðskap og vonumst til þess að aðrir taki það upp eftir okkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.