Lífið

Ísland geymir undur veraldar

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Mynd/Valli
Ómar Ragnarsson, fréttamaður og skemmtikraftur, ann íslenskri náttúru. Hann tók börn sín ung með í vinnuferðir um landið og er nú þakklátur fyrir að koma Láru dóttur sinni að gagni í Ferðastiklum. Ómar segir mikilvægt að kynna börnum land sitt og þjóð.



Hvaða staði á Íslandi er nauðsynlegt að sýna börnum?


Helst þá staði sem gera landið hvað sérstakast. Þar ber hæst þá staðreynd að hinn eldvirki hluti Íslands er talinn vera eitt af 40 mestu náttúruundrum veraldar.

Samspil eldstöðva og jökla, elds og íss, á sér engan samjöfnuð á jörðinni né eins fjölbreytileg náttúrufyrirbæri sem hafa skapast vegna eldvirkni og þessa samspils. Í stórri handbók um helstu undur veraldar stendur: „Ísland er einstætt meðal landa heims“ (e. „Iceland is a land like no other.“) Þess vegna er nauðsynlegt að sýna börnum fyrirbæri sem sanna þetta.

Lítið dæmi eru Hraunfossar í Borgarfirði en engir aðrir slíkir fossar finnast á jörðinni svo kunnugt sé. Fyrir austan Þingvelli eru móbergshryggir, Kálfstindar og Tindaskagi, en það eru gígaraðir sem gaus úr undir jökli og er hvergi hægt að sjá nema á Íslandi. Skjaldbreiður er dyngja, og hvergi í heiminum er jafn margar dyngjur að sjá og á Íslandi. Brún Almannagjár er austurbrún meginlandsfleka Ameríku, en Þingvellir og Þingvallavatn eru sigdæld, sem varð til þegar þessi meginlandsfleki færðist til vesturs, en Evrópuflekinn, sem byrjar raunar austur undir Heklu, er á austurleið. Í milli er svonefndur Hreppafleki sem er nokkurs konar „hlutlaust“ land. Dæmi um slíkt rek meginlanda og sköpun nýrra landa er hvergi að sjá á yfirborði jarðar nema á Íslandi.

Hvað fá börn út úr því að upplifa áfangastaði úr kennslubókunum af eigin raun?

Það er misjafnt hvað börn fá út úr ferðalögum. Sum eru áhugasöm en öðrum leiðist upptalning á örnefnum. Það er gefandi að búa til létta spurningaleiki með smá verðlaunum, svo sem að setja börnum einföld verkefni við að finna út á korti heiti fyrirbæra í ferðinni. Síðan á auðvitað ekki að þegja yfir því hvað áningarstaðir heita. Dropinn holar steininn.

Hvers virði er fyrir börn að upplifa land sitt með fjölskyldu sinni?

Það er afar mikils virði og skapar fleiri og fjölbreyttari fleti á nauðsynlegum og gefandi samskiptum í fjölskyldunni.

Hafa ber í huga að ávöxtur af slíkri upplifun skilar sér oftast ekki til fulls fyrr en löngu síðar, þegar börnin eru uppkomin, sjálf orðin uppalendur og fara að huga meira en fyrr að uppruna sínum og umhverfi.

Styrkir það fjölskylduböndin? Eflir virðingu, vitund og tilfinningu fyrir umhverfi og mannlífi?

Já, og skilar sér í því að skapa grundvöll fyrir betra og farsælla þjóðlífi og betri meðferð á landinu, sem skilar okkur virðingu í augum umheimsins – viðskiptavild ef menn vilja endilega mæla gildið í peningum.

Varst þú duglegur að ferðast með þín börn á sínum tíma og sýna þeim helstu náttúruperlur?

Fjölskylda okkar var óvenju stór og verkefni mín sömuleiðis óvenjulega fjölbreytt og tímafrek. Ég reyndi að taka þau með í sem flestar mínar ferðir þegar ég var að skemmta úti á landi og jafnvel í sumar af þeim fréttaferðum sem ég fór sem einyrki. Öll fengu þau að fljúga með mér og eftir að 21 barnabarn kom til sögunnar hafa þau öll, eldri en fjögurra ára, einhvern tíma flogið með mér; stundum fleiri saman en þó öll einu sinni ein með afa.

Hver er þinn uppáhalds fjölskylduferðastaður innanlands?

Þar getur verið atriði að á viðkomandi stað sé sléttur flötur fyrir leiki. Góð sundlaug skemmir ekki fyrir. Gullni hringurinn býður upp á margt slíkt, en nágrenni höfuðborgarsvæðisins er afar vanmetið svæði. Ég bendi á svæðið í kringum Kaldársel og Heiðmerkurhringinn sem ævintýraheim hrauna, hrauntraða, gjáa, hella og gróðurs í bland ásamt þægilegum fellum eða fjöllum til að ganga á. „Silfraði hringurinn“; Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp-Reykjanes er vanmetin ferðamannaleið. Kverkfjöll, Vesturbyggð, Hornstrandir og Strandir, Gjástykki-Leirhnjúkur, Askja og Kverkfjöll eru á topp tíu listanum, en fyrir venjulegt ferðafólk er Landmannaleið um Dómadal mun aðgengilegri en margir halda og algert konfekt. Bendi á heimildarmynd sem ég hef gert undir heitinu „Akstur í óbyggðum“ sem sýnd verður 1. júní næstkomandi í Sjónvarpinu.

Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir á landinu?

Ég á þrjá eftirlætisstaði sem ég reyni að koma á eins oft og ég get á hverju sumri. Þetta eru Sauðárflugvöllur, stór viðurkenndur og skráður flugvöllur á Brúaröræfum, sem ég hef valtað og merkt og er umsjónarmaður fyrir, Uppsalir í Selárdal, sem ég ásamt fjórum vinum mínum hef tekið í fóstur, og svo Hvammur í Langadal þar sem ég var í sveit sem barn.

Hvernig upplifun er að ferðast með einu barna sinna upp á nýtt, samanber Ferðastiklur ykkar Láru?

Ég er mjög ánægður með að ferðalög fyrir löngu með fjölskyldu minni eru að byrja að skila sér í gegnum ferðalög barna minna með fjölskyldum þeirra. Lára kallar ferðir sínar með sinni fjölskyldu „mömmuferðir“ og fékk þannig hugmynd að eigin þáttum, „Ferðastiklum“ þar sem afi gamli gæti kannski orðið að einhverju gagni. Það hefur glatt mig mikið og ég er þakklátur fyrir viðtökurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.