Innlent

Þátttakendur óskuðu eftir rýmri tíma

Freyr Bjarnason skrifar
Formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur segir miklvægast að fá góðar tilllögur.
Formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur segir miklvægast að fá góðar tilllögur. Fréttablaðið/Ernir
Frestur til að skila inn tillögum um heildarskipulag fyrir Háskólavæðið hefur verið framlengdur um rúmar tvær vikur, eða til 12. maí. Áætlað er að niðurstaða dómnefndar liggi fyrir í byrjun júní.

„Það er búið að vera svo mikið af samkeppnum í gangi, sérstaklega varðandi Úlfarsárdal sem var að klárast. Það komu óskir frá þátttakendum um að fá rýmri tíma og okkur fannst það mjög eðlilegt,“ segir Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, aðspurður.

„Það sem er mikilvægast er að fá góðar tillögur og einhverjar vikur til eða frá skipta litlu í því samhengi.“

Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands í samstarfi við Arkitektafélag Íslands efndu í febrúar til hugmyndasamkeppni um skipulagið. 

Hér má sjá hvernig Háskólasvæðið er skilgreint í keppnislýsingu.
Þátttakendur geta skilað inn heildarhugmyndum að framtíðarskipulagi eða lagt hugmyndir inn í umræðuna. Almenningur getur því sent inn tilllögur að skipulagi eða fyrirkomulagi að hluta svæðisins. Vonir standa til að þær verðlaunahugmyndirnar nýtist í áframhaldandi vinnu við gerð rammaskipulags fyrir svæðið.

„Það væri mjög gaman ef sem flestir taka þátt. Þetta er rosalega mikilvægt svæði í Reykjavík sem aldrei hefur verið skoðað sem slíkt nema í aðalskipulagi. Það eru mikil tækifæri til að efla þetta svæði,“ segir Páll. 

Heildarfjárhæð verðlauna verður allt að 6,5 milljónum króna án vsk. Á síðunni Hugmyndasamkeppni.is má sjá nánari upplýsingar, þ.á.m. nákvæma keppnislýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×