Lífið

Spennandi tækifæri í leikhúsinu

Baldvin Þormóðsson skrifar
Ilmur Stefánsdóttir, leikmyndahönnuður.
Ilmur Stefánsdóttir, leikmyndahönnuður. mynd/einkasafn
„Meginhugmyndin er að hér fá hinir ýmsu sviðshöfundar tækifæri til þess að fá að vinna aðeins opnari vinnu,“ segir Ilmur Stefánsdóttir, leikmyndahönnuður í Borgarleikhúsinu, en bryddað verður upp á þeirri nýjung á næsta leikári að sviðshöfundar geti sótt um að vera gestalistamenn í leikhúsinu.

„Sviðshöfundur getur verið dansari, myndlistamaður, tónlistarmaður en í þessu tilfelli er ramminn að viðkomandi listamenn búi til sviðsverk,“ segir Ilmur.

Sviðshöfundarnir koma til með að fá rými innan hússins til þess að þróa sínar hugmyndir og afraksturinn verður síðan kynntur sem verk í vinnslu.

„Hér eru vanalega gerðar fullkláraðar sýningar og þær sýndar en þetta verkefni er mótað til þess að styðja við ákveðna grósku, að kannski megi vinna opnari og meira leitandi vinnu og opna síðan dyrnar fyrir gestum,“ segir Ilmur sem mun virka sem tengiliður milli hússins og sviðshöfundanna en hver þátttakandi fær einn mánuð í húsinu til þess að vinna verkið.

„Síðan getur fólk sem kaupir sér árskort í leikhúsið valið allar þrjár vinnustofusýningarnar sem eina venjulega sýningu,“ segir Ilmur en þrír sviðshöfundar fá tækifæri til þess að spreyta sig í leikhúsinu.

Ilmur segir verkefnið vera spennandi tækifæri fyrir listamenn og hvetur alla til þess að sækja um en umsóknarferlið verður auglýst síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.