Lífið

YouTube-stjarna hittir aðdáendur í Smáralind

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Jenna og iJustine hlakka til að hitta aðdáendur sína um helgina.
Jenna og iJustine hlakka til að hitta aðdáendur sína um helgina. Vísir/Daníel
„Ég fer lítið í bíó en ég fór á kvikmyndina The Secret Life of Walter Mitty með systur minni. Þegar myndin var búin vorum við harðákveðnar í því að fara einhvern tímann til Íslands. Svo kom það til að myndverið Fox vildi senda okkur hingað til að kynna myndina og stukkum við á það tækifæri,“ segir YouTube-stjarnan og leikkonan iJustine, sem heitir réttu nafni Justine Ezarik.

Hún er á Íslandi ásamt systur sinni Jennu og fara þær af landi brott á þriðjudag. Meðan á ferðinni stendur setja þær daglega inn myndbönd á YouTube þar sem fólk getur valið á milli tveggja hluta sem þær þurfa að prófa á landinu. Kosningin fer fram á Twitter með sérstöku kassamerki og þær systur taka síðan upp herlegheitin og setja á YouTube.

iJustine á tæplega tvær milljónir fylgjenda á YouTube og ætlar að heilsa upp á aðdáendur sína á Íslandi við Smáratívolí í Smáralind á sunnudaginn klukkan 15.

„Þegar ég sagðist vera að koma hingað fékk ég fullt af tístum frá fólki sem vildi hitta mig. Ég held að það verði mjög gaman en ég hef ekki hugmynd um hve margir mæta,“ segir iJustine sem hafði heyrt af óförum Vine-stjörnunnar Jerome Jarre í Smáralind í byrjun árs áður en hún kom til landsins. Hún er því búin að skipuleggja heimsókn sína í verslunarmiðstöðina í þaula þannig að slíkt atvik ætti ekki að endurtaka sig.

„Ég hef verið að gera myndbönd á netinu síðan árið 2006 þannig að ég er ekki aðeins stór partur af lífi aðdáenda minna heldur eru þeir líka stór partur af mínu lífi. Ég hlakka til að eyða með þeim nokkrum klukkutímum, taka upp vídeó og myndir og bara spjalla.“

iJustine kann vel við sig á landinu.

„Þessir dagar hér hafa verið ótrúlegir. Ég hef aldrei hitt vingjarnlegra fólk en hér. Allir taka svo vel á móti okkur. Ég er ekki vön því enda bý ég í Los Angeles. Mig langar að gera eins mikið og ég get á meðan ég er hér. Í gær fór ég í Bláa lónið og hélt að iPhone-hulstrið mitt væri vatnshelt en svo var ekki. Nú er síminn minn bilaður en ég fór bara í næstu símaverslun og fékk lánaðan síma,“ segir stjarnan sem einnig hefur spreytt sig á leiklistinni í þáttum á borð við Criminal Minds og The Vampire Diaries. Hún kann þó vel við sig í YouTube-heiminum.

„Mig langar jafnvel að breyta YouTube-myndböndunum í sjónvarpsþætti eða kvikmynd einn daginn. Þetta er vinnan mín og hún getur verið strembin en þetta er það sem ég elska að gera.“

Hver er iJustine?

* Byrjaði að gera myndbönd árið 2006

* Hefur gert yfir 2.500 myndbönd

* Myndbandið sem er hvað þekktast er um 300 blaðsíðna símareikning sem iJustine fékk

* Myndböndin hennar hafa verið skoðuð tæplega 500 milljón sinnum

* Vann Webby-verðlaun árið 2011 sem besti vefsjónvarpsmaðurinn








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.