Lífið

Uppgötva nýja tónlist

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hafþór Óli Þorsteinsson og Viktor Jón Helgason starfrækja tónlistarsíðuna Songs.is sem sérhæfir sig í að kynna fólki nýja tónlist.
Hafþór Óli Þorsteinsson og Viktor Jón Helgason starfrækja tónlistarsíðuna Songs.is sem sérhæfir sig í að kynna fólki nýja tónlist. mynd/einkasafn
„Við vildum búa til síðu sem er hugsuð fyrir þá sem vilja uppgötva nýja tónlist. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð enda þótti okkur vanta svona síðu,“ segir Hafþór Óli Þorsteinsson sem stofnaði ásamt Viktori Jóni Helgasyni vefsíðuna Songs.is fyrir skömmu.

Um er að ræða vefsíðu þar sem þeir félagar kynna fólki nýja tónlist. „Við höfum eina reglu og hún er sú að við póstum ekki lögum ef þau eru eldri en mánaðargömul,“ segir Hafþór Óli.

Þeir félagar kynna bæði íslenska og erlenda tónlist á síðunni. „Við erum líklega aðeins meira í erlendri tónlist en við reynum að forðast að setja inn lög sem eru að fara fá spilun í útvarpið,“ bætir Hafþór Óli við. Þeir hafa báðir alla tíð verið virkir við að uppgötva nýja tónlist og eru miklir tónlistarunnendur.

Songs.is er ekki síða sem sér um plötuumfjallanir, heldur er meira lagt í að kynna lög fyrir hlustendum og í kjölfarið fær hlustandinn áhuga á tónlistarmanninum eða hljómsveitinni.

Á síðunni er að finna ýmsa tónlistarflokka þannig að ef fólk vill kynna sér nýja og framandi popptónlist þá smellir viðkomandi á flokkinn popp og svo framvegis. „Okkur fannst vera kominn tími til að búa til svona síðu og bæta nýjum lit í tónlistarlitrófið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.