Lífið

Stjörnumerkjaplattar í fallegum pastellitum fyrir heimilið

Marín Manda skrifar
Plattarnir eru skemmtilegar gjafir og fást í fallegum pastellitum.
Plattarnir eru skemmtilegar gjafir og fást í fallegum pastellitum.
 Þórunn Hulda Vigfúsdóttir hannar og framleiðir sniðugar gjafir undir nafninu, Merkið mitt.

„Þegar ég var að alast upp héngu koparpottar með stjörnumerkjum okkar fjölskyldunnar uppi á vegg hjá foreldrum mínum. Þetta var mjög vinsælt og þegar fólk kom í heimsókn var ósjaldan rætt um stjörnumerki fjölskyldumeðlima til skemmtunar.

Mér fannst þetta alltaf heillandi og langaði sjálfa að eignast svipað fyrir mína eigin fjölskyldu,“ segir Þórunn Hulda Vigfúsdóttir sem nú hefur hannað sína eigin stjörnumerkjaplatta undir nafninu Merkið mitt.



Þórunn Hulda lærði grafíska hönnun í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum og segir hugmyndina hafa fæðst á því tímabili. Nú handgerir hún og framleiðir staka stjörnumerkjaplatta í pastellitum fyrir alla fjölskylduna en einnig er hægt að sérpanta aðra liti. 

Teikningarnar af stjörnumerkjunum voru unnar í samvinnu við Dagbjörtu Thorlacius myndlistarkonu.

„Hvort sem þú ert ljón, vatnsberi eða í fiskamerkinu er hægt að fá platta í fjórum litum í þínu merki. Svo eru þetta einnig skemmtilegar fermingar-, skírnar- eða afmælisgjafir,“ segir Þórunn Hulda. 

Hægt er að nálgast plattana á Facebook-síðunni Multi by Multi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.