Lífið

Ört stækkandi hátíð

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Íris Stefanía Skúladóttir er framkvæmdastýra hátíðarinnar Listar án landamæra þar sem sérstök áhersla er lögð á blinda og sjónskerta í ár.
Íris Stefanía Skúladóttir er framkvæmdastýra hátíðarinnar Listar án landamæra þar sem sérstök áhersla er lögð á blinda og sjónskerta í ár. Vísir/Daníel
„Hátíðin í ár er svipuð að stærð og í fyrra en hún hefur farið ört stækkandi síðan árið 2003,“ segir Íris Stefanía Skúladóttir, framkvæmdastýra hátíðarinnar Listar án landamæra sem er sett í ellefta sinn í dag.

Borgastjórinn Jón Gnarr setur hátíðina í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 17.30 í dag þar sem fjöldinn allur af listamönnum mun troða upp og sýna verk sín. Hátíðin stendur til 25. maí með fjölbreyttri dagskrá víðs vegar um landið en einn verkefnastjóri hefur séð um að skipuleggja viðburði í hverjum landsfjórðungi í samstarfi við heimamenn.

„Það er leiklist, tónlist og mikið af myndlist á dagskránni og er mikil áhersla lögð á skemmtilegar leiðir í uppsetningu listar,“ segir Íris sem sér fram á viðburðaríkar vikur.

List án landamæra er hátíð fjölbreytileikans og auðugs samfélags. Hátíðin er ekki stofnun heldur grasrótarsamtök og var fyrst skipulögð af Friðriki Sigurðssyni, formanni Þroskahjálpar sem nú er verndari hátíðarinnar. Markmið hennar er að bæta aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu auk þess að brjóta niður múra á milli fatlaðra og ófatlaðra listamanna.

Sérstök áhersla er lögð á blinda og sjónskerta í ár og það hvernig þeir geta iðkað list og notið hennar. Til dæmis verður fjölskyldusýningin Hamlet litli í Borgarleikhúsinu, fyrst allra leiksýninga á Íslandi sýnd bæði með sjónlýsingum og táknmálstúlkun í einu. Boðið verður upp á heyrnartól með sjónlýsingum og verða leikarar túlkaðir með skuggatúlkun, einn túlkur á hvern leikara.

„Þetta er ákveðið frumkvöðlaverkefni sem við erum mjög spennt að sjá hvernig til tekst.“

Nánari dagskrá hátíðarinnar Listar án landamæra má finna á heimasíðunni Listin.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.