Lífið

Eiga mjög erfitt með að sleppa Urði

Ólöf Skaftadóttir skrifar
GusGus og Urður
GusGus og Urður Fréttablaðið/AntonBrink
Hljómsveitin GusGus gefur út nýja plötu þann 23. júní, en sveitina skipa Birgir Þórarinsson, Högni Egilsson, Stephan Stephansen og Daníel Ágúst Haraldsson. Platan heitir Mexico og er áttunda plata sveitarinnar.



„Við vorum alltof lengi að vinna að þessari plötu,“ segir Birgir, betur þekktur sem Biggi veira, léttur í bragði.

„Menn voru að vinna að ýmsu öðru, Stebbi fór í skútuferðalag og Högni gerði sólóplötu. Þannig að þetta tók tíma í almanakinu og það tekur svo sem alltaf tíma að melta svona verk. En í ferlinu varð líka mikið til sem fer ekki á plötuna,“ útskýrir Biggi.

Urður Hákonardóttir, fyrrverandi söngkona GusGus, syngur eitt lag á plötunni.

„Við eigum mjög erfitt með að sleppa Urði. Mér þykir svo vænt um að heyra röddina hennar,“ heldur hann áfram.

Aðspurður segir Biggi engar miklar breytingar í vændum frá sveitinni.

„Það urðu engar stökkbreytingar, en við vorum að leika okkur með nýja hluti og það sem okkur finnst skemmtilegt, og mér finnst það hafa komið vel út.“

Síðasta plata GusGus, Arabian Horse, kom út árið 2011.

„Platan varð gríðarlega vinsæl, þannig að menn ákváðu að vera ekki neitt sérstaklega stressaðir eða of metnaðarfullir í því að næsta plata yrði að vera eitthvert kraftaverk. Við gerðum bara það sem okkur finnst skemmtilegt að gera sem er að búa til tónlist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.