Lífið

Leika til styrktar fallegu málefni

Fréttablaðið/Valli
„Okkur finnst þetta bara fallegt málefni,“ segir Tómas Helgi, einn nemenda í Valhúsaskóla, en nemendur í 8.–10. bekk skólans standa fyrir sýningu á leikritinu Bugsy Malone í kvöld til styrktar Leiðarljósi, stuðningsmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sjaldgæfa og alvarlega langvinna sjúkdóma.

Nemendurnir í Valhúsaskóla hafa undanfarna tvo mánuði unnið hörðum höndum við uppsetningu leikritsins undir leikstjórn Ragnheiðar Maísólar Sturludóttur, en verkið var frumsýnt á árshátíð Valhúsaskóla á fimmtudaginn.

„Frumsýningin gekk rosalega vel,“ segir Tómas jafnframt, en hann fer með hlutverk Samma feita í verkinu. Aðspurður segir Tómas þá Samma ekki vera líka.

„Nei. Sammi er mjög geðstirð persóna, en ég er rólyndismaður,“ segir Tómas, sem finnst rosalega gaman að leika. „Ég fór að leika því mér fannst svo gaman að syngja, en svo fann ég bara að ég hafði áhuga á þessu öllu. Það sem gerir þetta svo skemmtilegt er hvað þetta er fjölbreytt og maður getur farið út fyrir þægindarammann sinn.“

Sýningin verður kl. 19.00 í kvöld í Félagsheimili Seltjarnarness við Suðurströnd. Það kostar 500 krónur inn fyrir þá sem eru á grunnskólaaldri en 1.000 kr. fyrir aðra. Allur ágóði rennur óskiptur til Leiðarljóss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.