Lífið

Vilja vekja athygli á því sem vel er gert

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Fyrstu verðlaunahafarnir, árið 2006, voru Þráinn Hafsteinsson og Þórdís Lilja Gísladóttir, uppfræðarar ársins, Sigríður Björnsdóttir fyrir hönd Blátt áfram, Alma Geirdal og Edda Ýrr Einarsdóttir fyrir hönd Forma, samtaka átröskunarsjúklinga, Thosiki Toma, vegna atlögu gegn fordómum, Gylfi Bragi Guðlaugsson, ung hetja og Guðbjörn Magnússon, hvunndagshetja.
Fyrstu verðlaunahafarnir, árið 2006, voru Þráinn Hafsteinsson og Þórdís Lilja Gísladóttir, uppfræðarar ársins, Sigríður Björnsdóttir fyrir hönd Blátt áfram, Alma Geirdal og Edda Ýrr Einarsdóttir fyrir hönd Forma, samtaka átröskunarsjúklinga, Thosiki Toma, vegna atlögu gegn fordómum, Gylfi Bragi Guðlaugsson, ung hetja og Guðbjörn Magnússon, hvunndagshetja. Fréttablaðið/Hari
„Þessi verðlaun eru hugarfóstur Steinunnar Stefánsdóttur, fyrrverandi aðstoðarritstjóra Fréttablaðsins,“ segir Einar Skúlason, verkefnisstjóri samfélagsverðlaunanna.

„Hana langaði til að gera eitthvað gott og að Fréttablaðið myndi nýta krafta sína til að ýta undir góð málefni.

Mér finnst mikilvægt – af því að fréttir eru í eðli sínu neikvæðar og ef allt er gott og blessað þá er það ekki fréttnæmt – að beina sjónum að því jákvæða sem er að gerast í samfélaginu og helst því sem fer hljótt. Þessi verðlaun eru svolítið sérstök því það er oft fólk sem afskaplega fáir vita af, en er að vinna mikilvægt starf, sem hlýtur þau.“

Sérstök dómnefnd fer yfir ábendingar frá lesendum og velur þrjá í hverjum flokki, nema heiðursverðlaunaflokknum, og tilnefnir til verðlaunanna.

„Tilnefningarnar eru síðan kynntar fyrirfram, nema hver hlýtur heiðursverðlaunin, það kemur í ljós á afhendingardeginum um leið og tilkynnt er hverjir hljóta verðlaunin í hinum flokkunum,“ segir Einar.

Hann segir jafnframt að fólk hafi í gegnum tíðina verið ákaflega ánægt með verðlaunaveitingarnar. „Þetta er alltaf mjög hátíðleg stund. Fólk mætir í sínu fínasta pússi og þetta er mikill gleðidagur.“

Skorað er á lesendur Fréttablaðsins að senda inn ábendingar um fólk og félagasamtök sem eiga skilið virðingarvott fyrir verk sín. Allir koma til greina, jafnt óþekktir einstaklingar sem vinna störf sín í hljóði, félagasamtök eða þjóðþekktir karlar og konur sem hafa með gjörðum sínum og framgöngu verið öðrum fyrirmynd.

Einar Skúlason.
Samfélagsverðlaunin eru veitt í fimm flokkum:

 Frá kynslóð til kynslóðar

    Hér koma til greina kennarar, leiðbeinendur, þjálfarar eða aðrir uppfræðarar sem skarað hafa fram úr á einhvern hátt. Einnig koma til greina félagasamtök sem sinna börnum af sérstökum metnaði og alúð.

 Hvunndagshetjan

    Einstaklingur sem sýnt hefur sérstaka óeigingirni eða hugrekki, hvort sem er í tengslum við einn atburð eða með vinnu að ákveðnum málaflokki í lengri tíma.

 Til atlögu gegn fordómum

    Einstaklingur eða félagasamtök sem hafa unnið ötullega að því að eyða fordómum í samfélaginu.

 Heiðursverðlaun

    Einstaklingur sem með ævistarfi sínu hefur stuðlað að betra samfélagi.

Samfélagsverðlaun

    Félagasamtök sem hafa unnið framúrskarandi mannúðar- eða náttúruverndarstarf og lagt sitt af mörkum til að gera íslenskt samfélag betra fyrir okkur öll. Verðlaunafé 1,2 milljónir.

Skilafrestur er til miðnættis þann 23. apríl 2014.

Verðlaunin verða afhent 13. maí af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.