Lífið

Keppa um áhorfendaverðlaun

Sker
Sker
Sjö íslenskar leiknar stuttmyndir verða sýndar klukkan 20.00 í kvöld í Bíói Paradís. Þessar myndir keppa um áhorfendaverðlaunin, auk stuttra íslenskra heimildamynda sem sýndar verða klukkan 20.00 á laugardaginn.

Reykjavík Shorts&Docs Festival er nú í tólfta sinn í Bíói Paradís og Stúdentakjallaranum dagana 3. til 9. apríl næstkomandi.

Áherslan er lögð á innlendar og erlendar stutt- og heimildarmyndir, en auk kvikmyndasýninga verður fjöldi annarra viðburða á hátíðinni. Áhorfendur munu velja bestu íslensku stutt- eða heimildarmynd hátíðarinnar og verða verðlaunin veitt sigurvegaranum við hátíðlega athöfn á lokakvöldi hátíðarinnar 9. apríl í Bíói Paradís.

Lesendur Movie Maker Magazine völdu Reykjavík Shorts & Docs Festival meðal fimm svölustu stuttmyndahátíða heims nýverið.

Sker: Sönn saga um kajakræðara sem fer í siglingu á Vestfjörðum og rær að skeri. Hann ákveður að leggja kajaknum og fara á skerið en kemst fljótlega að því að það var kannski ekki svo góð hugmynd.

Leikstjóri er Eyþór Jóvinsson.

Eylien
Eylien: Magnús er einstæður faðir. Dóttir hans Sóley elskar geimverur. Magnús þarf að fara óhefð­bundnar leiðir til að segja dóttur sinni frá breyt­ingum sem eru í vændum sem munu hafa mikil áhrif á líf þeirra.

Leikstjóri er Gunnar Gunnarsson.

Gabrielle
Gabrielle: Myndin fjallar um Gabriellu sem er að reyna að finna sjálfa sig á ný. Hún þarf að horfast í augu við fortíðina svo hún geti orðið hún sjálf aftur.

Leikstjórar eru Gunna Helga Sváfnisdóttir og Sigga Björk Sigurðardóttir.

Tooth For A Tooth
Tooth For A Tooth: Ung stúlka er numin á brott gegn vilja sínum og bundin við stól á ókunn­ugum stað. Yfirheyrsla hefst og smám saman, fara hlutirnir að skýrast á sársaukafullan hátt.

Leikstjóri er Aríel Jóhann Árnason.

The Gospel
The Gospel: Sigfús er ungur trúleysingi. En einn daginn vaknar hann upp við textaskeyti sem virðist koma frá Guði sjálfum. Daginn eftir byrjar hann að sjá undarleg skilaboð allt í kringum hann, sem virðast koma frá Guði.

Leikstjóri er Atli Sigurjónsson.

Gláma
Gláma: Kokkur er ráðinn til að elda í stórri veislu í afskekktu sumarhóteli að vetri til á Vestfjörðum. Þegar þangað er komið áttar hann sig fljótlega á því að ekki er allt með felldu og fljótlega fara ýmsir undarlegir atburðir að gerast.

Leikstjóri er Baldur Páll Hólmgeirsson.

Leitin að Livingstone
Leitin að Livingstone: segir frá Þór og Denna sem leggja af stað í leiðangur um Suðurlandið í leit að tóbaki en allt tóbak í borginni er uppurið vegna verkfalls opinberra starfsmanna. Áhorfandinn kynnist þessum kláru en klaufalegu félögum á ferðalaginu og örvæntingarfullri leit þeirra að tóbaki, sem þeir trúa stöðugt að sé handan við hornið.

Leikstjóri er Vera Sölvadóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.