Lífið

Kvikmyndin og verkin mynda eina heild

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ragnheiður og Markús Þór með verk eftir Hrein Friðfinnsson, Tvennt frá árinu 1974, úr safneign Nýlistasafnsins. Fréttablaðið/GVA
Ragnheiður og Markús Þór með verk eftir Hrein Friðfinnsson, Tvennt frá árinu 1974, úr safneign Nýlistasafnsins. Fréttablaðið/GVA Vísir/GVA
Sýning á verkum myndlistarmannsins Hreins Friðfinnssonar verður opnuð í Nýlistasafninu á Skúlagötu á morgun klukkan fimm.

Sýningin samanstendur af verkum Hreins auk kvikmyndar um líf hans og list, sem heitir Æ ofan í æ, í leikstjórn þeirra Ragnheiðar Gestsdóttur og Markúsar Þórs Andréssonar sem eru jafnframt sýningarstjórar sýningarinnar.

„Við unnum kvikmyndina þannig að ákveðin verk úr ferli Hreins eru notuð eins og hvatar að sögum í atburðarásinni. Þannig að kvikmyndin og sýningin mynda eina heild á Nýlistasafninu. Þarna eru bæði verk sem koma fyrir í myndinni en líka önnur verk sem bæði kallast á við heim kvikmyndarinnar og svo glæný verk sem Hreinn hefur unnið sérstaklega inn í rýmið hér,“ segir Ragnheiður.

„Myndin og verkin á sýningunni verða þannig í samtali og kallast á,“ en kvikmyndin verður svo sýnd á klukkutíma fresti í sérstöku rými á sýningunni.

„Nýlistasafnið er á Skúlagötunni þar sem Kexverksmiðjan Frón var til margra ára, rýmið er hrátt og svolítið frekt en Hreinn hafði strax áhuga á að vinna sérstaklega með gólfið sem er flísalagt, þannig að nýju verkin hans eru unnin beint inn á þetta gólf,“ segir Ragnheiður.

„Þetta verður líka tímamótasýning vegna þess að þetta er síðasta sýningin sem verður haldin á vegum Nýlistasafnsins í þessu rými. Safnið neyðist til þess að flytja sökum talsverðrar hækkunar á leiguverði og það ríkir mikil óvissa um næsta aðsetur safnsins. Það vakti að sjálfsögðu strax áhuga Hreins, þessi hugmynd um að vinna með eitthvað sem er að hverfa eða breytast,“ bætir Ragnheiður við.

Á Listahátíð verður sérstök dagskrá í kringum sýninguna.

„Þá kemur gjörningalistamaðurinn Magnús Logi Kristinsson, sem leikur eitt aðalhlutverkið í myndinni, til landsins og flytur gjörning. Svo munum við setja upp nýtt vídeóverk sem Magnús og Hreinn gerðu saman og kallast að einhverju leyti á við okkar kvikmynd, okkur hálfvegis grunar að þeir hafi verið að gera grín að okkur þar. Auk þess verða valin vídeóverk eftir Hrein á dagskrá eitt kvöldið og á síðasta degi sýningarinnar, þann fimmta júní, verður haldið á safninu sjónþing um kvikmyndina og verkin hans Hreins og samhengið þar á milli.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.