Lífið

Tíu ára afmæli alþýðuhátíðar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Birna Jónasdóttir, rokkstjóri hátíðarinnar, Hálfdán Bjarki, reglugerðarfrömuður hátíðarinnar, Pétur Magnússon eða fallegi smiðurinn, kynnir hátíðarinnar, og Kristján Freyr Halldórsson, listrænn ráðunautur hátíðarinnar.
Birna Jónasdóttir, rokkstjóri hátíðarinnar, Hálfdán Bjarki, reglugerðarfrömuður hátíðarinnar, Pétur Magnússon eða fallegi smiðurinn, kynnir hátíðarinnar, og Kristján Freyr Halldórsson, listrænn ráðunautur hátíðarinnar. vísir/samúel
„Það verður svo sem engum flugeldum skotið á loft en við höldum okkar stefnu og uppruna og lofum frábærri hátíð eins og undanfarin ár,“ segir Birna Jónasdóttir, rokkstjóri Aldrei fór ég suður sem fram fer dagana 18. og 19. apríl næstkomandi, en hátíðin á tíu ára afmæli í ár.

Í gær fór fram blaðamannafundur á Ísafirði þar sem ný atriði á hátíðinni voru kynnt en á meðal þess sem kynnt var í gær var Helgi Björnsson ásamt stórsveit Vestfjarða, heimamaðurinn Guðmundur Magnús Kristjánsson, Muggi sem er pabbi Mugisons, og þá spila Snorri Helgason og Kaleo einnig á hátíðinni. Margir fleiri listamenn koma fram á hátíðinni í ár.

„Við erum mjög spennt fyrir dagskránni sem liggur fyrir,“ segir Birna.

„Þetta er vonandi í síðasta sinn sem hátíðin fer fram í Grænagarði, skemmu Gámaþjónustu Vestfjarða. Við erum að vinna í því að finna húsnæði til frambúðar. Það er ekki til hús sem er nægilega stórt og hentar hátíðinni, en við höfum hugsað út í uppblásið tjald sem er í raun eins og uppblásið hús því veggirnir eru allt að metri á þykkt, það væri þó einungis skammtímalausn.“ útskýrir Birna.

Helgi Björnsson kemur fram ásamt stórsveit Vestfjarða.Mynd/Anton Brink
Hátíðin hefur stækkað mikið á undanförnum árum og er að verða ein vinsælasta tónlistarhátíð ársins hér á landi. „Það var gerð óformleg talning og þá var reiknað með að um 3.000 manns hafi verið á svæðinu en það eru þó mjög óformlegir útreikningar,“ bætir Birna við.

Styrktaraðilar hátíðarinnar eru Flugfélag Íslands, Landsbankinn, Orkusalan, Samskip og Orkubú Vestfjarða en stuðningurinn gerir að verkum að engan aðgangseyri þarf að greiða á hátíðina.

Tónlistin mun duna föstudaginn 18. apríl og laugardaginn 19. apríl frá klukkan 18 til 24 í Grænagarði. Þá munu Kraumur – tónlistarsjóður og Aldrei fór ég suður bjóða upp á samræðugrundvöll tónlistarmanna og gesta um landslag tónlistar á Íslandi. Fara samræðurnar fram á milli 14 og 17 á föstudeginum.

Listamennirnir sem koma fram:

Retro Stefson

Helgi Björnsson og stórsveit Vestfjarða

Maus

Mammút

Grísalappalísa

Tilbury

Hermigervill

Sigurvegarar Músíktilrauna 2014

Dj. Flugvél og geimskip

Glymskrattinn

Highlands

Cell7

Contalgen Funeral

Rhytmatic

Markús and the Diversion Sessions

Lón

Kött grá pjé

Þórunn Arna Kristjánsdóttir og búgíband Skúla mennska

Dusty Miller

Sólstafir

Lína Langsokkur

Hemúllinn

Rúnar Þórisson

Kaleo

Snorri Helgason


Tengdar fréttir

Helgi Björns á Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður, rokkhátíð alþýðunnar, fagnar tíu ára afmæli sínu og voru ný atriði kynnt á blaðamannafundi á Ísafirði í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.